Veðurstofa Íslands hefur lýst yfir óvissustigi vegna snjóflóðahættu á norðanverðum Vestfjörðum. Nokkur minni snjóflóð hafa fallið, einkum í Skutulsfirði en einnig í Súgandafirði. Þau hafa hvorki verið fyrir ofan byggð né náð niður á veg.
Frá þessu er greint í tilkynningu frá Lögreglunni á Vestfjörðum. Þar kemur fram að í slíku óvissustigi felist aukinn viðbúnað snjóflóðavaktar Veðurstofunnar og snjóathugunarmanna ásamt samráði við lögreglu og almannavarnir í héraði vegna snjóflóðahættu sem upp kann að koma í byggð.
Óvissustig felur ekki í sér yfirvofandi snjóflóðahættu í byggð, heldur að hætta geti skapast. Óvissustigi er lýst yfir til þess að þeir sem koma að aðgerðum, sem getur þurft að grípa til, séu viðbúnir. Óvissustigi er lýst yfir fyrir heila landshluta en ekki tiltekna staði áður en ákvarðanir eru teknar um aðgerðir svo sem rýmingu húsnæðis. Oftast er einungis um að ræða hugsanlega snjóflóðahættu á einum eða fáum stöðum á viðkomandi svæði.
Eins og áður sagði er ekki talin hætta á ofanflóðum ofan byggðar á Vestfjörðum, eins og staðan er. Hins vegar er nokkur hætta á að snjóflóð geti fallið á vegi, svo sem við Súðavíkurhlíð, Eyrarhlíð og Flateyrarveg svo nokkrir vegir séu nefndir. Fólk er því hvatt til að vera ekki á ferðinni milli byggðakjarna að nauðsynjalausu.
Skíðasvæðinu upp á Seljalandsdal var lokað nú fyrir skömmu síðan og veginum þangað upp eftir einnig. Snjóflóð hafa verið að falla niður hlíðina ofan þess vegar. Athugað verður með opnun vegarins í fyrramálið.
Tilkynning lögreglunnar er aðgengileg hér að neðan.
NV Vestfirðir - óvissustig vegna snjóflóðahættu. Veðurstofa Íslands hefur lýst yfir óvissustigi vegna snjóflóðahættu á...
Posted by Lögreglan á Vestfjörðum on Friday, 22 January 2021