Áköf úrkoma hefur verið á sunnanverðum Vestfjörðum frá því í nótt, en óvissustig er þar í gildi. Á vef Veðurstofu Íslands kemur fram að mikil rigning er á svæðinu, en samkvæmt spám er úrkomumagnið svipað og 26. janúar síðastliðinn, þegar krapaflóð féllu ofan Patreksfjarðar, Bíldudals og í Arnarfirði. Þá féll einnig vott snjóflóð í sama veðri á Raknadalshlíð í Patreksfirði.
Veðurstofa varar við því að möguleg flóð gætu orðið svipuð að stærð og þann 26. janúar, en ekki er búist við sérstaklega stórum krapa- og snjóflóðum þar sem ekki er mikill snjór á svæðinu.
Vegfarendur og ferðafólk á svæðinu er hvatt til að sýna aðgæslu, sérstaklega á stöðum þar sem grjót getur fallið og nærri vatnsfarvegum í brattlendi þar sem krapaspýjur geta borist niður. Þá eru íbúar í húsum nærri farvegum með sögu um krapaflóð hvattir til þess að sýna aðgæslu og ekki dvelja að óþörfu nærri farvegum.
Þá hafa íbúar í húsunum næst Geirseyrargili (Stekkagili) á Patreksfirði verið beðnir um að sýna aðgæslu og dvelja ekki í kjallaraherberjum með gluggum sem vísa upp í hlíðina á meðan mesta rigningin gengur yfir. Eins og horfi við núna þyki þó ekki ástæða til að grípa til rýminga.
Ofanflóðavakt Veðurstofunnar mun áfram fylgjast náið með þróun mála í samvinnu við almannavarnir og lögreglu á svæðinu.