Áköf úr­koma hefur verið á sunnan­verðum Vest­fjörðum frá því í nótt, en ó­vissu­stig er þar í gildi. Á vef Veður­stofu Ís­lands kemur fram að mikil rigning er á svæðinu, en sam­kvæmt spám er úr­komu­magnið svipað og 26. janúar síðast­liðinn, þegar krapa­flóð féllu ofan Pat­reks­fjarðar, Bíldu­dals og í Arnar­firði. Þá féll einnig vott snjó­flóð í sama veðri á Rakna­dals­hlíð í Pat­reks­firði.

Veður­stofa varar við því að mögu­leg flóð gætu orðið svipuð að stærð og þann 26. janúar, en ekki er búist við sér­stak­lega stórum krapa- og snjó­flóðum þar sem ekki er mikill snjór á svæðinu.

Veg­far­endur og ferða­fólk á svæðinu er hvatt til að sýna að­gæslu, sér­stak­lega á stöðum þar sem grjót getur fallið og nærri vatns­far­vegum í bratt­lendi þar sem krapa­spýjur geta borist niður. Þá eru í­búar í húsum nærri far­vegum með sögu um krapa­flóð hvattir til þess að sýna að­gæslu og ekki dvelja að ó­þörfu nærri far­vegum.

Þá hafa í­búar í húsunum næst Geirs­eyrar­gili (Stekka­gili) á Pat­reks­firði verið beðnir um að sýna að­gæslu og dvelja ekki í kjallara­her­berjum með gluggum sem vísa upp í hlíðina á meðan mesta rigningin gengur yfir. Eins og horfi við núna þyki þó ekki á­stæða til að grípa til rýminga.

Ofan­flóða­vakt Veður­stofunnar mun á­fram fylgjast náið með þróun mála í sam­vinnu við al­manna­varnir og lög­reglu á svæðinu.