Óvissustigi hefur verið lýst yfir vegna landriss í Öskju. Hraðar landbreytingar hafa mælst í Öskju síðustu vikur; um 7 sentimetra landris samkvæmt GPS-mælitæki og nákvæmri úrvinnslu gervitunglamynda.

Samkvæmt Veðurstofu Íslands hefur kvika líklega safnast fyrir á 2 til 3 kílómetra dýpi. Hefur því Ríkislögreglustjóri í samráði við Lögreglustjórann á Norðurlandi Eystra lýst yfir óvissustigi. Eins hefur fluglitakóða verið breytt úr grænum í gulgan en þetta er gert þegar eldstöð sýnir merki um virkni umfram venjulegt ástand.

Veðurstofan og Jarðvísindastofnun Háskólans munu efla mælingar og vöktun í Öskju til þess að fylgjast enn betur með hegðun eldstöðvarinnar.

Tómas Guðbjartsson læknir tók myndina.

Askja er megineldstöð norðan Vatnajökuls, í Ódáðahrauni á hálendi Íslands og gaus síðast árið 1961.

Óvissustig almannavarna þýðir að aukið eftirlit er haft með atburðarás sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar verði ógnað.

Að lýsa yfir óvissustigi er hluti af verkferlum í skipulagi almannavarna til að tryggja formleg samskipti og upplýsingagjöf á milli viðbragðsaðila.

Mynd sem sýnir nær lóðrétta færslu á tímabilinu 1. ágúst til 5. september, 2021. Miðja þenslunnar og jafnframt þar sem risið mælist mest er við norðvesturhorn Öskjuvatns nærri GPS stöð (svartur þríhyrningur).
Mynd: Veðurstofa Íslands