Var ásinn nokkuð farinn? er spurning sem mun ó­lík­lega heyrast framar við strætó­skýli borgarinnar. Þeir sem bíða eftir strætis­vögnum sínum geta nú séð á staf­rænum bið­skýlunum hversu langt er í næsta vagn.


Vinna hófst í ágúst í fyrra við að setja upp ný staf­ræn bið­skýli um borgina. Þau eru með LED-skjáum, sem munu fram­vegis sýna hversu langt er í vagnana. Nú er tæknin þegar komin á 56 bið­skýli en stefnt er að því að bið­skýlin verði orðin hundrað fyrir árs­lok. Verk­efnið miðar þá við að 210 raf­ræn bið­skýli verði sett upp.

Dagur B. Eggerts­son borgar­stjóri var mættur niður á Lækjar­torg klukkan 13:30 í dag þar sem kveikt var á kerfinu í fyrsta skipti. Sjálfur vildi borgarstjórinn meina að hann hefði kveikt á því með hugaraflinu.

Raun­tíma­upp­lýsingarnar eru nú sýni­legar sem tvær línur efst á aug­lýsinga­skjánum í skýlinu. Til stendur einnig að gera þessar upp­lýsingar að­gengi­legar í Strætó-appinu svo not­endur þess geti séð raun­tíma­upp­lýsingar hvar sem er.


„Þetta er stórt skref í átt að betri þjónustu fyrir við­skipta­vini Strætó en þessi virkni mun eyða ó­vissu og bæta upp­lifun þeirra sem eru að bíða eftir vagni,“ segir í til­kynningu frá borginni.