Um 60 prósent Japana vilja að hætt verði við Ólympíuleikana sem eiga að hefjast þar í landi 23. júlí. Þetta kemur fram í niðurstöðum skoðanakönnunar dagblaðsins Yomiuri Shimbun.

Eins og Fréttablaðið greindi frá ákváðu japönsk stjórnvöld í síðustu viku að framlengja neyðarástand í landinu vegna Covid-19 fram til maíloka. Fjórða bylgja faraldursins stendur nú yfir og þúsundir nýrra tilfella hafa greinst daglega að undanförnu. Alls hafa 642 þúsund greinst með smit í landinu.

„Það yrði óásættanlegt ef ófullnægjandi ráðstafanir vegna leikanna yrðu þess valdandi að ný afbrigði veirunnar bærust til landsins,“ sagði Yukio Edano, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Japan, á þingfundi í síðustu viku.

Þrátt fyrir að hafa ítrekað sagt að leikarnir yrðu haldnir virðist forsætisráðherrann Yoshihide Suga einnig vera að íhuga stöðu mála. Aðspurður hvort halda ætti þá ef faraldurinn héldi áfram að stigmagnast svaraði hann: „Ég hef aldrei sett leikana í fyrsta sæti.“

„Við erum að sjálfsögðu áhyggjufull en það hefur verið í umræðunni núna að Ólympíuleikarnir muni fara fram með breyttu sniði,“ segir Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. „Það er verið að gera allar ráðstafanir til að draga úr hættu á smiti sem hægt er.“

Anton Sveinn er eini Íslendingurinn sem er kominn inn á Ólympíuleikana í Tókýó.
fréttablaðið/getty

Líney segir þó að lokaákvörðunin um að taka þátt á leikunum sé undir íþróttafólkinu komin. „Það mun enginn neyða einn né neinn til að fara,“ segir hún.

Að sögn Líneyjar hefur Alþjóðaólympíunefndin gert samning við lyfjaframleiðandann Pfizer og nú sé verið sé að skoða hvort hægt verði að bólusetja íslensku Ólympíufarana áður en þeir fara út. Alþjóðlegir áhorfendur verða ekki á leikunum í ár og miklar takmarkanir eru á hverjir mega sækja leikana.

Aðspurð hvað það myndi þýða fyrir íþróttafólkið ef leikunum yrði aflýst segir Líney að einhverjir gætu misst tækifærið til að taka þátt.

„Ef til þess kæmi væri það auðvitað skelfilegt fyrir íþróttafólk sem hefur verið að undirbúa sig í alla vega fjögur ár, ef ekki mun lengur, og missir síðan tækifærið á að spreyta sig á þessu stærsta sviði íþróttanna,“ segir hún. „Við krossum fingur um að þetta geti allt farið fram með öruggum hætti, en að sjálfsögðu má ekki taka neina áhættu með heilsu og líf fólks.“