Frá því að Covid-19 faraldurinn braust út hafa bílaframleiðendur átt erfitt með að afhenda nýja bíla á tilsettum tíma. Hnökrar í framleiðslu og vöruflutningum hafa valdið miklum töfum og erfitt hefur reynst að vinna upp uppsafnaða eftirspurn .

Eftir að stríð braust út í Úkraínu hefur enn sigið á ógæfuhliðina hjá öllum stærstu framleiðendum. Stórar stálverksmiðjur í Úkraínu standa tómar og framleiðsla á ýmiss konar aukahlutum í bíla liggur niðri. Nýir bílar skila sér því bæði seint og illa inn á alla helstu markaði.

Vandamál þessu tengd eru farin að gera vart við sig í auknum mæli hér á landi nú þegar ferðaþjónustan er aftur að taka við sér eftir faraldurinn. En stór hluti þeirra erlendu gesta sem sækja Ísland heim reiða sig á bílaleigubíla á ferðum sínum um landið.

Steingrímur Birgisson, forstjóri Bílaleigu Akureyrar, segir þessar tafir skapa mikla óvissu inn í sumarið. „Eins og staðan er hjá okkur núna þá erum við búin að panta liðlega 1.500 nýja bíla fyrir sumarið en enn sem komið er hafa ekki nema 500 bílar skilað sér til landsins.

Það er engin leið að vita hvenær þeir þúsund bílar sem upp á vantar skila sér til landsins, segir Steingrímur. „Við vinnum þetta bara frá einni viku til annarrar. En það eru allir í myrkrinu hvað þetta varðar. Bílaleigur, umboðin og framleiðendurnir sjálfir. Þetta er alþjóðlegt vandamál í bransanum sem við erum að reyna að ráða fram úr.“

Steingrímur nefnir sem dæmi húsbíla. Þegar sé orðið ljóst að þeir bílar sem fyrirtækið pantaði á síðasta ári muni ekki berast í tæka tíð og því hafi verið brugðið á það ráð að taka ákveðna leiguflokka úr sölu.

„Við erum bara á fullu að reyna að kaupa bíla. Nýta allar þær leiðir sem eru færar. En þetta er alþjóðlegt vandamál. Það eru allir að reyna að fóta sig í þessu ástandi," segir Steingrímur.

Staðan er samt sem áður nokkuð góð hjá bílaleigum miðað við mörg önnur íslensk fyrirtæki í ferðaþjónustu. Bílaleiga Akureyrar reiknaði með að vera með um 6 þúsund bíla í umferð í sumar, sem er talsverð aukning frá árunum fyrir faraldur. „Það stefnir í algjört metsumar ef mið er tekið af bókunum. Vandamálið er að við vitum ekki hvenær bílarnir sem við höfum pantað skila sér til landsins.“

Engin leið er að vita hvenær nýir bílar skila sér til landsins.
Fréttablaðið/Jóhanna