Donald Trump, sitjandi Banda­ríkja­for­seti, neitar enn að játa sig sigraðan en tæpar fjórar vikur eru nú frá því að Banda­ríkja­menn gengu til kosninga þar í landi. Innan við viku eftir kosningarnar var því lýst yfir að Joe Biden hafi unnið kosningarnar og er talið nánast öruggt að Biden taki við em­bætti í janúar.

Trump hefur í­trekað gefið í skyn að kosninga­svindl hafi átt sér stað, án sannanna, og hefur teymi Trumps höfðað mál í nokkrum ríkjum í von um að fá úr­slitum kosninganna snúið en í nánast öllum til­fellum hefur málunum verið vísað frá eða dóm­stólarnir úr­skurðað gegn Trump.

Þá hefur Trump einnig farið fram á endur­talningu í nokkrum ríkjum þar sem mjótt var á munum milli Trumps og Bidens en eitt af öðru hafa ríkin stað­fest úr­slit kosninganna. Wisconsin lauk við endur­talningu í tveimur stærstu sýslum ríkisins í gær þar sem Biden fór með sigur af hólmi.

Erfitt að koma málum til Hæstaréttar

Í við­tali við sjón­varps­stöðina Fox News í morgun hélt Trump því enn og aftur fram að kosninga­svindl hafi átt sér stað en teymi Trumps hefur ekki tekist að sann­færa dómara í lykil­ríkjum á borð við Michigan, Georgíu, Arizona og N­evada um slíkt. Í viðtalinu hélt hann því fram að dómararnir vilji ekki leyfa lögmönnum Trumps að leggja fram sannanir.

Ýjað hefur verið að því að lög­menn Trumps fari með málið til Hæsta­réttar Banda­ríkjanna en Jenna Ellis, lög­maður kosninga­t­eymis Trumps, virtist gefa til kynna eftir að teymið tapaði á­frýjunar­máli í Penn­syl­vaníu fyrir helgi að þau væru á leiðinni með málið til Hæstaréttar. Rudy Giuli­ani, lög­maður Trumps, sagði þó skömmu síðar að teymið væri enn að skoða alla mögu­leika.

Ætlar ekki að hætta að berjast

Í við­talinu vildi Trump lítið gefa upp hver næstu skref þeirra yrðu. „Vanda­málið er að það er erfitt að koma [málunum] til Hæsta­réttar,“ sagði Trump en gaf engar upp­lýsingar um hvort hann teldi að Hæsti­réttur myndi vísa málinu frá eða hvort lög­menn hans myndu ekki einu sinni reyna.

Hann sagðist þó ekki vera hættur að reyna að fá niður­stöðunum snúið og að hann myndi ekki skipta um skoðun eftir sex mánuði en um­mælin virðast benda til þess að Trump muni ekki játa ó­sigur, jafn­vel eftir 20. janúar, þegar ný­kjörinn for­seti tekur við em­bætti.