Opnun leikskóla fyrir haustið hefst í dag og mun standa fram í næstu viku. Þó liggur fyrir að sumir leikskólastarfsmenn sem hafa verið sprautaðir með bóluefninu Janssen verða ekki búnir að fá aðra sprautu til þess að vernda þá fyrir Delta-afbrigði kórónaveirunnar áður en þeir mæta aftur til starfa.

Að sögn Helga Grímssonar, sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, liggja enn ekki fyrir leiðbeiningar frá Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni sem fara verði eftir við skólahald í haust. Samkvæmt heimild frá Reykjavíkurborg verða málefni tengd sóttvörnum og skólahaldi rædd á fundi neyðarstjórnar í dag.

„Ég held að þegar við komumst fram yfir þessi sumarleyfi sem eru búin að vera í gangi fáum við betri mynd af þessu,“ segir Helgi. „Samkvæmt reglugerðum verðum við að fylgja leiðsögn og fyrirmælum frá heilbrigðisyfirvöldum. Borgaryfirvöld semja ekki leikreglurnar.“