Mikil reiði og óvissa ríkir í Ölfusi eftir að bæjarstjórn tók þá ákvörðun að Hjallastefnan myndi taka yfir rekstur eina leikskólans í sveitarfélaginu.

Fyrst var greint frá fyrirætlununum á fundi með starfsfólki þann 29. júní síðastliðinn.

Hrafnhildur Hjartardóttir, sem er með barn á Bergheimum, segir fregnirnar hafa komið eins og þruma úr heiðskíru lofti rétt fyrir sumarfrí og tekur starfsfólk í sama streng.

Mörgum spurningum hafi verið ósvarað eftir fundinn en sama dag hafi komið fram í fjölmiðlum að Hjallastefnan myndi taka við rekstri leikskólans á næstu dögum.

Um einhliða ákvörðun að ræða

Hún segir ekkert samráð hafa verið viðhaft af hálfu bæjarstjórnar við starfsmenn leikskólans í aðdraganda tilkynningarinnar og ekki heldur við stjórnanda hans.

„Stjórnandinn var kallaður á fund klukkan 13 þann 29. júní þar sem honum var tilkynnt þetta.“

Fjórum tímum seinna hafi starfsfólki skólans verið sagt frá breytingunni. Að sögn Hrafnhildar var málið rætt í fyrsta skipti á fundi bæjarstjórnar klukkan 16:15 sama dag ef marka má birtar fundargerðir.

„Á fundi með foreldrum í gær sögðu þeir okkur að þessi hugmynd hafi fyrst komið upp 9. júní en það virðist engin fundargerð hafa verið gerð.“

Starfsfólk finnur fyrir óvissu og kvíða

Í opnu bréfi frá starfsfólki Bergheima kemur fram að mikil óvissa, reiði, sorg og kvíði ríki meðal þeirra.

„Enginn veit hvað bíður okkar, barnanna og foreldra þegar leikskólinn opnar aftur eftir sumarfrí.“

„Okkur finnst illa að þessu staðið, enginn virðist geta svarað þeim spurningum sem við höfum og benda hver á annan,“ segir þar enn fremur.

Óljóst með starfsöryggi

„Þetta er mjög skrítið mál og mér finnst framkoman við starfsmenn leikskólans vera hrokafull og sorgleg,“ segir Hrafnhildur.

Auk þess fari tvennar sögur af því hvort allir starfsmenn Bergheima fái starf hjá Hjallastefnunni.

„Hjallastefnan segir við foreldra að allir starfsmenn fái vinnu og sveitarstjórnin segir það líka en svo kemur fram í einkaviðtölum að það virðist ekki vera tryggt.“

Hið sama kemur fram í áðurnefndu bréfi starfsmanna.

Hrafnhildur segir að reynt hafi verið að afhenda þeim uppsagnarbréf þann 30. júní án árangurs en stéttarfélag þeirra hefur ráðlagt þeim að taka ekki við þeim.

Hún bætir við að aðgerðin komi á erfiðum tíma fyrir marga nú þegar atvinnuleysi mælist í hæstu hæðum.

„Það er mjög illa að þessu staðið. Það á að gera þetta alveg á mettíma og þegar við erum rétt að detta í sumarfrí.“

Segjast ekki vera með sérfræðiþekkingu

„Rökin sem þau komu með á fundi í gær voru að bæjarstjórnin og bæjarstjóri væru ekki með sérfræðiþekkingu á rekstri leikskóla en Hjallastefnan sé það.“

„Þau eru ekki heldur með sértæka þekkingu á rekstri grunnskóla eða elliheimilisins hérna eða hafnarinnar, til þess eru stjórnendur á þessum stofnunum. Svo það er spurning hvort þau vilji þá líka gera þjónustusamninga um restina.“