Óvíst er hvernig tilhögun skólastarfs verður í haust vegna fjölgunar COVID-19 tilfella. Skólastjórar framhaldsskóla búast jafnvel við að þurfa að grípa til fjarkennslu á ný, en á grunnskólastiginu er róið að því að halda starfinu óbreyttu fyrir nemendurna.

Framhaldsskólar hefjast flestir upp upp úr miðjum ágúst en grunnskólar að jafnaði viku síðar.

Magnús Ingvason, skólameistari Fjölbrautaskólans við Ármúla, segir kennara nú undirbúa önnina, hvort sem um verði að ræða stað- eða fjarkennslu. „Við bíðum aðeins eftir því hvernig mál þróast, en ég hef látið kennara vita að mögulega verði byrjað á fjarkennslu,“ segir hann.

Ingi Ólafsson, skólastjóri Verzlunarskólans, segir að verið sé að teikna upp sviðsmyndir sem miði við skilaboð almannavarna um fjölda í hverju rými og hvort tveggja metra reglan verði í gildi.

„Ef ekki verður hægt að hefja kennslu með hefðbundnum hætti, þá verður farið í fjarkennslu með svipuðu sniði og á síðustu önn,“ segir hann. Sambland af stað- og fjarkennslu komi einnig til greina.

Sigrún Björnsdóttir, upplýsingafulltrúi skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, segir unnið að skipulagi grunnskólastarfsins í samvinnu við stjórnendur.

„Meginmarkmiðið er að tryggja að starfið haldist óbreytt fyrir börnin og unglingana,“ segir Sigrún. „Í því samhengi verður höfuðáherslan lögð á smitgát milli starfsfólks í daglegu starfi og milli foreldra og starfsfólks.“ Eigi þetta meðal annars við um aðgengi að sameiginlegum skóla- og frístundarýmum.

Fundað var í neyðarstjórn Reykjavíkurborgar í gær, en frekari tilmæli um skólastarf hafa ekki borist frá almannavörnum. Núverandi takmarkanir gilda til 13. ágúst en eiga ekki við um börn á grunnskólaaldri.

„Maður veit aldrei hvað gerist, hvort þurfi að hafa eitthvað rafrænt og annað í stofu, en það verður leitast eftir að halda náminu óbreyttu,“ segir Sigrún. Í vor þurfti að skammta bekkjum tíma.

Sigurjón Ólafsson, sviðsstjóri þjónustu- og þróunarsviðs Hafnarfjarðar, á von á að sveitarfélögin samræmi aðgerðir. Fundað hafi verið í gær og fundur verði aftur í vikunni. „Þá búumst við við því að línurnar verðir orðnar skýrari,“ segir hann.