Mikil óvissa er uppi hjá íslensku sviðslistafólki eftir að stjórnvöld kynntu hertar sóttvarnaraðgerðir fyrr í dag.

Enn er flestum í fersku minni þegar ótal viðburðum var aflýst í vor vegna samkomutakmarkana með miklum fjárhagslegum skakkaföllum fyrir listamenn og menningarstofnanir.

Á blaðamannafundi í dag gáfu stjórnvöld út að frá og með hádeginu á morgun verði samkomur takmarkaðar við 100 manns og fólki gert að virða tveggja metra regluna á ný í hvívetna.

Er gert ráð fyrir því að nýju takmarkanirnar muni gilda í minnst tvær vikur og hafa fjölmargir listamenn sopið hveljur vegna aðgerðanna.

Forsvarsmenn Hörpu og atvinnuleikhúsanna eru sammála um að aftur sé uppi flókin staða í sviðslistageiranum og að óljóst sé hversu mikil áhrif takmarkanirnar muni hafa á starfsemi þeirra.

Tveggja metra reglan þyngst í vöfum

„Þetta er auðvitað ekki óskastaða fyrir okkur, listirnar hafa þurft að taka á sig þung högg eins og öllum er ljóst og listamenn hafa gert sitt allra besta í kófinu til að halda uppi gleði og næringu til landsmanna,“ segir Brynhildur Guðjónsdóttir, leikhússtjóri Borgarleikhússins.

Hún sér fram á að þessar hertu takmarkanir eigi eftir að hafa mikil áhrif á rekstur og starf leikfélagsins. Þar sé það tveggja metra reglan sem sé hvað þyngst í vöfum.

Ekki sé hægt að halda úti leiksýningum í Borgarleikhúsinu ef fólk þurfi að vera í tveggja metra fjarlægð líkt og sýndi sig í vor þegar sýningar lögðust af.

„Nú erum við bara að skoða planið og munum gefa út hið allra fyrsta hvernig við munum haga málum en auðvitað skiptir heilsa okkar allra öllu máli.“

Nú þurfi einfaldlega að bregðast við aðstæðunum og vona það besta.

„Við sitjum auðvitað við sama borð og allar aðrar menningarstofnanir. Auðvitað er leiðinlegt að það hafi komið til þess að setja tveggja metra regluna á aftur en það hefur verið vel haldið utan um þetta hingað til.“

Ekki er mikið starf í gangi hjá Borgarleikhúsinu nú um hásumarið en leiksýningar eru fyrirhugaðar þar í ágúst.

„Við bara bregðumst við með skynsömum hætti og gerum allt í góðu samráði við heilbrigðisyfirvöld og förum á stað þegar það er óhætt og hægt.“

Óljóst hvaða áhrif þetta hefur á undirbúning leikársins

„Við erum enn að meta hvaða áhrif þetta hefur en við munum auðvitað kappkosta að gera þetta rétt, þannig að öryggi sé tryggt í samræmi við þessi tilmæli og á sama tíma að reyna að halda áfram að undirbúa glæsilegt leikár sem hefst vonandi fyrr eða síðar,“ segir Magnús Geir Þórðarson, leikhússtjóri Þjóðleikhússins.

Fyrirhugað er að sýna fyrstu sýningar á nýju leikári Þjóðleikhússins í lok ágúst og er enn nokkuð óljóst hvaða áhrif hertu takmarkanirnar hafa á undirbúninginn.

„Við auðvitað vonumst til þess að það muni rætast úr þessari stöðu og að sýningar geti hafist handa en ef ekki þá verðum við bara að aðlaga okkur að þeim breytingum.“

Allar sýningar og æfingar lögðust af í vor vegna faraldursins en stefnt er að því að hefja æfingar aftur í ágúst.

„Við vonumst auðvitað innilega til þess að við getum hafið glæsilegt leikár enda þurfum við öll á því að halda að njóta menningar og að láta hreyfa við okkur. Við gerum það þó innan þeirra marka sem sett eru og viljum nálgast málið af mikilli ábyrgð.“

Líkt og maí sé kominn aftur

„Þetta hefur auðvitað veruleg áhrif á þá viðburði sem eru fram undan innan þessa tímaramma, allavega næstu tvær vikurnar, mismikil eftir því hvers eðlis viðburðirnir eru,“ segir Svanhildur Konráðsdóttir, forstjóri Hörpu.

Þar nefnir hún til að mynda viðburði með Múlanum Jazzklúbbi sem fari fram í opnu rými.

„Þar förum við bara aftur í það fyrirkomulag sem við vorum með í maí að við stillum upp sætum svo það sé tveggja metra bil á milli og ekki fleiri en hundrað.“

Slíkt sé þó mun flóknara þegar um er að ræða viðburði í Eldborgarsal Hörpu.

Svanhildur segir að erfitt sé að segja til um það á þessum tímapunkti hvort mörgum viðburðum verði aflýst vegna breytinganna. Það eigi eftir að skýrast betur á næstunni en nú þegar er búið að fresta eða aflýsa þremur viðburðum í ágústmánuði.

„Við erum að fara aftur núna í þann fasa eins og ég segi að beita þeim ráðum sem við notuðum í byrjun maí.“

Líkt og hjá leikhúsunum sé það tveggja metra reglan sem hafi meiri áhrif en sjálf fjöldatakmörkin.

„Við getum mjög vel unnið með fjöldatakmarkanir af því að Harpa er auðvitað stórt hús með mismunandi Sali en tveggja metra reglan hefur eðlilega mjög afgerandi áhrif.“