„Það eru allir farnir að keyra börnin sín í skólann og einkabílarnir eiga helst að komast að skólahurðinni en skólabíllinn, sem ber ábyrgð á börnunum allan daginn, það er einhvern veginn alveg sama hvar hann á að stoppa. Sundlaugin er eiginlega síðasta vígið, aðrir staðir eru komnir í betra horf,“ segir Gunnar M. Guðmundsson, framkvæmdastjóri SBA Norðurleiðar.

Fyrirtækið sendi skipulagsráði Akureyrar bréf þar sem kom fram að aðstaða við sundlaug Akureyrar væri með öllu óviðunandi enda væri ekkert stæði fyrir skólabílinn sem stoppar fyrir utan sundlaugina á um hálftíma fresti.

Sundlaugin er eiginlega síðasta vígið, aðrir staðir eru komnir í betra horf.

Bílstjórar SBA Norðurleiðar þurfa að hleypa börnunum út við sundlaugina aftan við bílana sem lagt er þar í stæði og bíða eftir næsta hóp. Það getur valdið miklum pirringi hjá öðrum gestum sundlaugarinnar og hefur fyrirtækið orðið ítrekað fyrir tjóni þegar fólk bakkar úr stæðum.

„Það er fólk sem sest inn í bílinn og tekur kannski ekki eftir því að rúta sé komin fyrir aftan þau og setur í bakkgír og því fer sem fer,“ segir Gunnar og bætir við að tjónið sem verði sé töluvert.

Gunnar M. Guðmundsson, framkvæmdastjóri SBA Norðurleiðar, segir að kvartað hafi verið undan þessu aðstöðuleysi í mörg ár.
Fréttablaðið/Auðunn.

Í bréfi fyrirtækisins til bæjaryfirvalda bendir Gunnar á að hægt sé að gera stæði sunnar á bílaplaninu og verði það málað og merkt þannig að bíllinn geti staðið þar milli ferða og hindri ekki að sundlaugargestir komist leiðar sinnar.

Búið að væla um þetta í mörg ár

Gunnar segist vona að bærinn geri bragarbót á málinu en hann hefur áður bent á stæðaleysið fyrir rúturnar.

„Ég vona nú að bærinn fari að gera eitthvað í þessu. Hvort sem það verður á þessu ári eða næsta mun koma í ljós. Því verða þeir að svara. Það er búið að væla um þetta í mörg ár og ekkert gerist en ég vona að eitthvað gerist núna. Það er og hefur verið mismikill áhugi á þessu máli en það er fyrst núna sem ég vona að eitthvað gerist,“ segir framkvæmdastjórinn.