Söngvarinn Matti Matt segist hafa tekið því fagnandi þegar kollegi hans Heiða Ólafsdóttir kom að máli við hann um að syngja lögin með henni í Salnum.

„Heiða hefur gengið með þessa hugmynd í maganum í nokkurn tíma og þegar hún bað mig að vera með varð ég himinlifandi. Það er svo gaman að vera með aðeins annan vinkil á svona tónleikum, þar sem Þorsteinn Eggertsson á yfir 300 texta við íslensk dægurlög og það er alltof sjaldgæft að öðrum en lagahöfundum eða flytjendum sé gert hátt undir höfði á heiðurstónleikum.“

Óskalög sjúklinga og sjómanna

Matti segir Þorstein hafa tekið vel í hugmyndina. „Hann hefur verið á svona „til í allt basis“ í þessu ferli, yndislegur maður og sögurnar sem hann man úr þessum bransa eru óviðjafnanlegar.

Þessi lög og þessir textar eru tónlistin sem ég ólst upp við. Hvort sem það voru Óskalög sjúklinga eða Óskalög sjómanna þá var Þorsteinn Eggertsson aldrei langt undan.

Þetta eru allt lög sem voru sungin í partíum hjá foreldrum minnar kynslóðar og við þekkjum öll þessi lög og þessa texta,“ segir Matti.Aðspurður hvert sé hans uppáhald segir Matti nokkur lög koma upp í hugann: „Himinn og jörð, Er ég kem heim í Búðardal, Ástarsæla, Söngur um lífið og ég gæti haldið endalaust áfram,“ svarar Matti sem fær að syngja mörg af sínum uppáhaldslögum.

Þorsteinn sem nú nálgast áttrætt er annálaður sögumaður enda af nægu að taka hjá manni sem hefur verið viðriðinn tónlistarbransann hér á landi og erlendis allt frá sjötta áratugnum og auðvitað á Matti sína uppáhaldssögu.

„Ég hef mjög gaman af sögunni um textann Betri bílar, yngri konur, eldra whiskey, meiri pening. Þar syngur Björgvin Halldórsson um Paul McCartney með mjög íslenskum hreim eins og gert var á þeim árum þar sem Paul rímar ekkert sérstaklega vel við handaskol nema með enskum hreim. Það er kannski erfitt að segja þessa sögu á prenti, en hún verður frábær á tónleikunum,“ segir Matti og hlær.