Baráttan um embætti leiðtoga breska Íhaldsflokksins stendur nú á milli tveggja frambjóðenda: utanríkisráðherrans Liz Truss og fyrrverandi fjármálaráðherrans Rishi Sunak. Kosningaherferðir þeirra til að taka við af Boris Johnson sem flokksleiðtoga og þar með forsætisráðherra hafa verið groddalegar og fúkyrði og ásakanir um lygar hafa flogið á báða bóga.
Enn er rúmur mánuður þar til fyrir liggur hvort þessara leiðtogaefna verður næsti forsætisráðherra. Keppnin hefur staðið yfir síðan Johnson tilkynnti afsögn sína þann 7. júlí síðastliðinn, en ekki er búist við lokaniðurstöðu fyrr en 5. september.
Ef Truss vinnur verður hún þriðji kvenforsætisráðherrann í sögu Bretlands, á eftir Margaret Thatcher og Theresu May. Ef Sunak ber sigur úr býtum verður hann fyrsti forsætisráðherra landsins af asískum ættum.