Alls létust 760 ein­staklingar hér á landi á fyrsta árs­fjórðungi þessa árs og hafa fleiri ekki látist á einum árs­fjórðungi frá því að Hag­stofa ís­lands byrjaði að birta tölur um and­lát eftir árs­fjórðungum.

Þetta kemur fram á vef Hag­stofu Ís­lands.

Fjöldi fæddra barna á fyrsta árs­fjórðungi ársins var 1.110 en sem fyrr segir létust 760 ein­staklingar.

Frétta­blaðið fjallaði um málið í byrjun mánaðarins og ræddi meðal annars við Láru Árna­dóttur, skrif­stofu­stjóra hjá Út­farar­stofu kirkju­garðanna.

„Þetta er búið að vera stærsti mánuðurinn hjá okkur,“ sagði Lára. Sagðist hana gruna að opnanir hjúkrunar­heimila hafi sín á­hrif, enda full­orðið fólk við­kvæmara fyrir smitandi veirum.

Þá sagði séra Guð­rún Karls Helgu­dóttir, sóknar­prestur í Grafar­vogs­kirkju, að stundum hefðu verið tvær út­farir á dag.

„Það er ó­venju­legt að haldnar séu tvær jarðar­farir á dag en það er búið að gerast nokkrum sinnum,“ sagði hún og kvaðst velta fyrir sér hvort þetta tengdist af­léttingu haftanna eftir kórónu­veirufar­aldurinn.

Í tölum Hag­stofunnar kemur fram að í lok fyrsta árs­fjórðungs þessa árs hafi 377.280 manns búið á Ís­landi, þar af 193.730 karlar og 183.550 konur. Fjölgaði því lands­mönnum um 1.280 á árs­fjórðungnum. Kyn­hlut­lausir voru 90 en vegna smæðar hópsins er honum dreift af handa­hófi á milli karla og kvenna. Á höfuð­borgar­svæðinu bjuggu 241.560 manns en 135.720 á lands­byggðinni.