Alls létust 760 einstaklingar hér á landi á fyrsta ársfjórðungi þessa árs og hafa fleiri ekki látist á einum ársfjórðungi frá því að Hagstofa íslands byrjaði að birta tölur um andlát eftir ársfjórðungum.
Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands.
Fjöldi fæddra barna á fyrsta ársfjórðungi ársins var 1.110 en sem fyrr segir létust 760 einstaklingar.
Fréttablaðið fjallaði um málið í byrjun mánaðarins og ræddi meðal annars við Láru Árnadóttur, skrifstofustjóra hjá Útfararstofu kirkjugarðanna.
„Þetta er búið að vera stærsti mánuðurinn hjá okkur,“ sagði Lára. Sagðist hana gruna að opnanir hjúkrunarheimila hafi sín áhrif, enda fullorðið fólk viðkvæmara fyrir smitandi veirum.
Þá sagði séra Guðrún Karls Helgudóttir, sóknarprestur í Grafarvogskirkju, að stundum hefðu verið tvær útfarir á dag.
„Það er óvenjulegt að haldnar séu tvær jarðarfarir á dag en það er búið að gerast nokkrum sinnum,“ sagði hún og kvaðst velta fyrir sér hvort þetta tengdist afléttingu haftanna eftir kórónuveirufaraldurinn.
Í tölum Hagstofunnar kemur fram að í lok fyrsta ársfjórðungs þessa árs hafi 377.280 manns búið á Íslandi, þar af 193.730 karlar og 183.550 konur. Fjölgaði því landsmönnum um 1.280 á ársfjórðungnum. Kynhlutlausir voru 90 en vegna smæðar hópsins er honum dreift af handahófi á milli karla og kvenna. Á höfuðborgarsvæðinu bjuggu 241.560 manns en 135.720 á landsbyggðinni.