Óvenju gott tíðarfar veldur því að ekki þarf að grípa til skerðingar á raforku til stórnotenda í vetur líkt og gert var síðastliðinn vetur. Það eru góðar fréttir fyrir fiskimjölsverksmiðjur landsins nú þegar hillir undir loðnuvertíð.

Fyrir sléttu ári síðan var staðan þannig í Neskaupstað, þar sem Síldarvinnslan er með umfangsmikla starfsemi, að flutningskerfi Landsvirkjunar réði ekki við að flytja alla þá orku sem til þurfti á milli landshluta vegna bágrar stöðu í uppistöðulónum.

En nú er tíðin önnur og veður skaplegra. Samkvæmt upplýsingum frá Landsvirkjun hafa suðaustanáttir með hlýindum og úrkomu aukið mjög rennsli til Hálslóns, sem og til Tungnaár og Þórisvatns.

Staða miðlunarforða er því góð og útlit fyrir að hægt verði að anna allri orkuþörf viðskiptavina Landsvirkjunar út veturinn.

Af tíu fiskimjölsverksmiðjum landsins ganga þrjár enn fyrir olíu. Hinar sjö, sem afkasta um 70 prósentum af heildarframleiðslunni, nýta að jafnaði græna orku. Það er að segja þegar tíðarfar er skaplegt.

Jón Már Jónsson, yfirmaður landvinnslu hjá Síldarvinnslunni, segir gott að vita til þess að næg orka sé fyrir hendi.

„Þetta er allt önnur staða. Síðastliðinn vetur þurftum við að brenna gríðarlegu magni af olíu til að keyra vinnsluna vegna skerðingar á raforku. Það var óvenju slæmt og gerði okkur erfitt fyrir,“ segir Jón Már.

Síldarvinnslan í Neskaupstað þurfti að brenna olíu í stórum stíl vegna skerðingar á raforku í fyrravetur. Nú er tíðin önnur.

Hann segist fara bjartsýnn inn í veturinn með þessi tíðindi frá Landsvirkjun.

„Þetta skiptir okkur sköpum. Við höfum fjárfest gríðarlega til þess einmitt að geta notað græna orku, þannig að við erum í draumastöðu þegar tíðarfarið er svona. Nú bíðum við bara eftir loðnunni og erum klár í vertíðina sem hefst eftir áramót. Hún er okkur mikilvæg og þá er gott að þurfa ekki að hafa áhyggjur af orkunni.“

En hvað sem rysjóttu tíðarfari líður segir Jón Már stóru myndina vera að auka þurfi við orkuframleiðslu.

„Þetta er allt orðið mjög tæpt og það má í raun ekkert út af bregða. Ef það kemur upp ein bilun þá dettum við út og förum yfir á olíu. Það vantar einfaldlega meiri orku og betri flutning svo hægt sé að sigla lygnan sjó í gegnum álagstímabilin. Það er langtímaverkefnið,“ segir Jón Már.

Landsvirkjun áformar að auka afl í virkjunum sínum á Þjórsársvæðinu, meðal annars til að auka sveigjanleika í kerfinu. Stækkun og aflaukning virkjananna tekur hins vegar nokkur ár og því viðbúið að aflskortur setji áfram strik í reikninginn hjá stórnotendum á næstu árum, jafnvel þótt nægt vatn sé í lónum.