Í samantekt um verkefni ársins 2022 hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins kemur fram að útköllum dælubíla fjölgaði en sjúkraflutningum fækkaði á milli ára.

Í skýrslunni kemur fram að fyrri hluta ársins hafi verkefni sem tengdust Covid verið algeng í samstarfi við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu. Þá var unnið að viðbúnaði vegna gróðurelda í samstarfi við hagaðila, ásamt samstarfsverkefnum við ýmsa aðila t.d. Veðurstofu Íslands.

Alls var farið í 1534 verkefni á dælubílum á síðasta ári sem var aukning um 15,86 prósent frá árinu áður. Það er metaukning á milli ára og má helst rekja það til óveðurs og vatnstjóna.

Heilt yfir fjölgaði útköllum vegna óveðurs um 183 prósent á milli ára og útköllum vegna vatnstjóna fjölgaði um 53 prósent.