Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, er nú með tvö minnisblöð í vinnslu fyrir heilbrigðisráðherra. Hann á ekki von á því að leggja til að sóttvarnaaðgerðum verði aflétt hraðar en áætlað var. Þær takmarkanir sem eru í gildi núna gilda til 2. febrúar eða til miðvikudags í næstu viku.
Fyrra minnisblað Þórólfs snýr að sóttkví, sýnatökum og smitgát og hvernig er hægt að einfalda það. Hann á von á því að hann skili ráðherra því í dag. Seinna minnisblaðið snýr að samfélagslegum aðgerðum og á Þórólfur von á því að skila því til ráðherra seinna í vikunni.
Hann segist ekki hafa hug á því að breyta takmörkunum fyrir 2. febrúar og vill frekar leggja áherslu á að einfalda og létta sóttkví og smitgát.
„Það mun örugglega leiða til meiri útbreiðslu í samfélaginu og fleiri munu smitast en maður vonast til þess að það leiði ekki til neins alvarlegs. En það er sú vegferð sem við erum byrjuð á og ég held að við ættum að halda því áfram og fara svo í þessar samfélagslegu aðgerðir,“ segir Þórólfur.
Fleiri í sóttkví við greiningu
Alls greindust 1.1151 smit innanlands í gær og 145 á landamærunum. Fram kemur á vefnum covid.is að rúmur helmingur eða 53 prósent hafi verið í sóttkví við greiningu.
„Þetta er svipuð staða og hefur verið undanfarna daga og ljósi punkturinn er sá að það eru töluvert fleiri í sóttkví við greiningu. Þetta hefur hlaupið upp og niður áður,“ segir Þórólfur.
Hann segir að enn megi sjá innlagnir á spítala. Það hafi þrír lagst inn í gær og enn séu alvarleg veikindi á spítalanum en fjórir af þeim 38 sem nú liggja inni eru í öndunarvél.
„Það eru miklu færri að leggjast inn alvarlega veik núna og upplýsingar og greining á gögnum frá Landspítalanum sýnir að bólusetningin, sérstaklega örvunarskammturinn, er að koma vel í veg fyrir alvarleg veikindi,“ segir Þórólfur og að það sé gott.
Stefnum öll að afléttingum
Mikið hefur undanfarna daga verið rætt um afléttingar og sagði Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, í Bítinu á Bylgjunnií morgun að í ráðuneytinu væri verið að vinna að afléttingaráætlun. Spurðu hvort þetta sé unnið í samráði við hann segir Þórólfur að þeir tali mikið saman.
„Ég hef sagt það áður og segi aftur að auðvitað stefnum við öll að því að aflétta, en mín skoðun hefur ávallt verið sú að það sé gert á gögnum en ekki með einhverja tilfinningu eða eftir því hvað við viljum gera,“ segir Þórólfur.
Hann segir að lengi hafði verið beðið eftir greiningu á gögnum frá Landspítalanum sem núna eru komin og styðja við önnur gögn sem sýna fram á að miklu færri veikjast af Omíkron en fyrri afbrigðum veirunnar.
Ég hef sagt það áður og segi aftur að auðvitað stefnum við öll að því að aflétta, en mín skoðun hefur ávallt verið sú að það sé gert á gögnum
„Við höfum auðvitað ekkert áhyggjur af veikindum út í bæ nema það leiði til alvarlegra veikinda. Ég held því að við getum haldið áfram á þeirri braut sem við erum á og við erum byrjuð á því að einfalda margt í tengslum við til dæmis sóttkví, einangrun, sýnatökur og smitgát,“ segir Þórólfur og að hann vilji halda áfram á þeirri vegferð og gera það eins auðvelt og lítið íþyngjandi fyrir almenning eins og hægt er.
„Þá förum við líka í afléttingar á takmörkunum en ég held að það eigi að gerast í skrefum. Það er varasamt að fara of hratt og fá bakslag og þurfa að stíga aftur til baka. Ég held að það sé ekki það sem menn vilja sjá,“ segir Þórólfur.
Mun taka nokkrar vikur að ná hjarðónæmi
Greint var frá því fyrr í dag á vef Fréttablaðsins að það megi gera ráð fyrir því að tuttugu prósent Íslendinga undir fertugu hafi verið búin að greinast með Covid-19 fyrir mánuði síðan samkvæmt fyrstu niðurstöðum rannsóknar Íslenskrar erfðagreiningar.
„Við eigum þá nokkuð í land með að ná hjarðónæmi, en það mun gerast og það mun taka einhverjar vikur að ná því og þá mun þetta smit ganga yfir. Við losnum ekki við það fyrr en við náum góðu ónæmi í samfélaginu. Það tekur sinn tíma,“ segir Þórólfur og að þeirra markmið sé enn að takmarka þann fjölda sem verður alvarlega veikur. Þótt svo að hlutfallið sé aðeins um 0,1 prósent þá sé alltaf hætta á að það verði hærra ef við sleppum öllum takmörkunum.
Annar sem hefur viðrað sínar skoðanir um afléttingar er Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, en hann segir að engar forsendur séu lengur fyrir því að loka fólk inni í einangrun og sóttkví og að samhliða því að því verði hætt eigi að hætta skimunum.
„Ég er ekki sammála því en ég held að við getum slakað á þessu og fikrað okkur þannig áfram í tilslökunum en ég held það væri óvarlegt að hætta öllu bara einn, tveir og þrír,“ segir Þórólfur.
Samkvæmt fyrstu niðurstöðum rannsóknar ÍE gefur bóluefnið einnig góða vörn með smiti, en ekki bara alvarlegum veikindum.
Þórólfur segir að aðrar rannsóknir styðji það en áréttar þó að það sem helst hefur komið fram er að bóluefnin, og þá sérstaklega fyrir þau sem hafa þegið þrjá skammta, veitir góða vörn gegn alvarlegum veikindum.
„Það eru samt sem áður dálítill fjöldi sem er bólusettur sem hefur smitast. Við sjáum það í okkur gögnum að líkurnar á smiti eru miklu lægri hjá þeim sem hafa þegið þrjár sprautur. Bólusetningin kemur í veg fyrir smit en sérstaklega fyrir alvarleg veikindi og það er þungamiðjan í þessu,“ segir hann.