Jarð­vegur var sprengdur upp fyrir efnis­töku seint að kvöldi síðast­liðinn fimmtu­dag með þeim af­leiðingum að möl og stór­grýti lokaði vegi um Skorra­dal, er kemur fram í frétt Rúv um málið.

Lög­reglan á Vestur­landi hefur málið til rann­sóknar þar sem talið er ó­var­lega hafa verið staðið að vega­fram­kvæmdum.

Sam­kvæmt um­fjöllun Skessu­horns virðast reglur um verk­lag hafa verið brotnar og lög­reglu ekki gert við­vart um sprenginguna. Veginum var heldur ekki lokað, í­búar á nær­liggjandi svæðum ekki gert við­vart og engar við­varanir settar upp.

Fólki á svæðinu virðist hafa verið nokkuð brugðið en líkt og kemur fram í frétt Skessu­horns voru ein­hverjir sem héldu að stífla Anda­kíls­ár hefði brostið. Heppi­lega meiddist enginn í fram­kvæmdunum.

Verk­takinn fyrir vega­fram­kvæmdina er Þróttur, sam­kvæmt Skessu­horni, en undir­verk­taki við efnis­vinnsluna er Borgar­virki.