Forsætisráðherra Ástralíu, Scott Morrison segist „alltaf hafa trúað á kraftaverk“ eftir að niðurstöður þingkosninga þar í landi urðu nokkuð ljósar fyrir skömmu. BBC greinir frá þessu.

Samkvæmt útgönguspám leit allt út fyrir að Verkamannaflokkurinn myndi ná naumum sigri í fyrsta skipti í sex ár. Nú er hins vegar nokkuð ljóst að samsteypustjórn miðju- og hægriflokka undir forystu Scott Morrison verði áfram við völd en hvort honum takist að mynda meirihlutastjórn er ekki víst eins og staðan er núna.

Þannig er aðeins búið að telja rúm 70% atkvæða og þurfa ríkisstjórnarflokkarnir enn tvö þingsæti til viðbótar til að mynda meirihlutastjórn án aðkomu minni flokka.

Bill Shorten, formaður Verkamannaflokksins, hefur viðurkennt ósigur sinn og sagt af sér sem formaður flokksins í kjölfarið. Til mikils var ætlast af flokknum í ár en samkvæmt útgönguspám hefur hann verið með stuðning meirihluta kjósenda í um tvö ár. Niðurstöður kosninganna hafa því komið mörgum verulega á óvart.