Dagur B. Eggerts­son, borgar­stjóri Reykja­víkur, minnist Örnu Schram með hlýjum orðum á Face­book-síðu sinni nú í morguns­árið.

Arna lést á Land­spítalanum í gær, 53 ára að aldri, en hún var sviðs­stjóri hjá Reykja­víkur­borg og fyrr­verandi for­maður Blaða­manna­fé­lags Ís­lands.

„Elsku Arna Schram er látin. Það var ó­um­ræðan­lega sorg­legt að fá þessar fréttir og ó­vænt. Arna geislaði af lífs­vilja, sínum með­fædda metnaði og krafti, líka í harðri bar­áttu sinni við erfitt krabba­mein undan­farin misseri,“ segir Dagur í minningar­orðum sínum.

Dagur hitti Örnu fyrir jól og segir að hún hafi verið bjart­sýn og lagt drög að því að koma til baka að stýra menningar- og ferða­mála­sviði borgarinnar allt fram á fyrstu daga þessa árs.

„Með­ferðin hafði sannar­lega tekið á hana en við deildum öll með henni þeirri bjarg­föstu trú að þetta gengi vel og hlökkuðum til að fá hana til baka. Þegar við hittumst fyrir jól var hún ekki síður með blik í auga og eftir­væntingu í svipnum, eins og þegar hún gekk til liðs við borgina fyrir fimm árum síðan til að leiða menningar- og ferða­málin, upp­full af nýjum hug­myndum, fram­tíðar­sýn og krafti.“

Dagur segir að Reykja­víkur­borg hafi borið ein­stök gæfa til að laða að sér sterkar konur í stjórn­enda­hóp borgarinnar og Arna Schram sannar­lega verið ein af þeim. Hún hafi alltaf verið vakandi yfir verk­efnum dagsins, ein­beitt og á­ræðin og náð ó­trú­legum árangri í verk­efnum sínum.

„Borgin, menningar­lífið og fram­tíð hennar fyllti án efa stóran hluta af vöku­tíma Örnu - og mér kæmi ekki á ó­vart að menningin og borgin hafi líka komið við sögu í draumum hennar, slík var ást­ríðan og metnaðurinn. Það var að­eins Birna dóttir hennar og fólkið hennar og fjöl­skylda og nánir vinir sem skipaði æðra sæti. Um það var ekki um að villast.“

Dagur segir að missir borgarinnar sé mikill en missir fjöl­skyldu Örnu sé bæði djúpur, sár og ó­sann­gjarn.

„Það er þyngra en tárum taki að við fáum ekki notið krafta, sam­veru, visku og vin­áttu Örnu lengur. Ég votta þeim mína dýpstu sam­úð. Blessuð sé minning Örnu Schram.“

Arna Schram var 53 ára þegar hún lést.