„Fjöl­miðlar eiga aldrei að gera sér mat úr því þegar fólk er í and­legu ó­jafn­vægi,“ sagði Kristinn Rúnar Kristins­son, höfundur bókarinnar Maníu­raunir og bar­áttu­maður, á mál­þinginu „Að­gát skal höfð“, sem fram fór á Grand hótel í morgun, um ó­um­beðna at­hygli fjöl­miðla í hans garð og hvar mörk þeirra liggja.

Kristinn Rúnar fjallaði um tvö at­vik þar sem fjallað hefur verið um hann. Annars vegar þegar hann var í maníu árið 2015 og af­klæddist á Austur­velli í miðjum Free The Nipple mót­mælum og svo árið 2018 þegar hann hitti blaða­manninn sem skrifaði frétt um at­vikið á visir.is og krafði hann svara um um­fjöllunina. Fjallað var um það á dv.is og gefið í skyn að hann hafi ráðist á blaða­manninn.

Kristinn Rúnar sagði frá því að at­vikið á Austur­velli hafi átt sér stað í hans þriðju maníu af alls fjórum.

„Topp fimm eftir­minni­legustu dögum lífs míns,“ sagði Kristinn Rúnar, en bætti svo við að hann hafi þó ekki endað vel.

Hann sagði söguna af deginum sem hann varð „Strípa­lingurinn á Austur­velli“. Hann hafi farið í ræktina, sem hann hafi iðu­lega gert á meðan hann var í maníu, tekið góða æfingu og svo farið á English Pub.

„Sem er minn heima­völlur í maníu,“ sagði Kristinn Rúnar.

Tók ekki eftir myndatökunni

Hann segir að hann hafi heyrt út undan sér að á Austur­velli væri Free The Nipple sam­koma sem endaði með því að hann hafi farið á Austur­völl, af­klæðst, stillt sér upp nakinn við styttu Jóns Sigurðs­sonar og svo klætt sig aftur í.

„Þetta var 20 sekúndna gjörningur,“ sagði Kristinn Rúnar sem sagðist með gjörningnum hafa verið að reyna að sýna konunum sam­stöðu, á mjög ýktan hátt. Það hafi lík­lega ekki tekist.

Hann segir að á meðan gjörningnum stóð hafi hann verið með lokuð augu og verið ein­beittur að því sem hann var að gera. Hann hafi því ekki tekið eftir mynda­tökunni, en gerir ráð fyrir því að veg­farandi hafi lík­lega smellt af myndinni og svo sent hana á visir.is.

Tók ekki eftir mynda­tökunni og senni­lega var það gan­gangi veg­farandi og sendi á Vísi.

Hann sagði að fullt af fólki hafi hringt á lög­regluna, sem síðar um daginn kom heim til hans, og fór með honum á geð­deild, þar sem hann lagðist inn.

„Það sem ég veit ekki er að þessi mynd er kominn inn á vísi og ég al­ger­lega varnar­laus inni á geð­deild,“ sagði Kristinn.

Kristinn Rúna er mikill baráttumaður fyrir geðheilbrigðismálum.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Óánægður með viðbrögð blaðamanna

Hann segir að það hafi liðið tvær vikur þar til bræður hans hafi komið á geð­deild og sýnt honum myndina. Þeir hafi verið stressaðir, og hafi í raun verið hissa að sjá hversu vel hann brást við.

Kristinn segir að í fyrstu hafi honum ekki fundist um stór­mál að ræða en að hann hafi svo orðið reiður þegar hann fór svo að skoða fréttina nánar og sá að fréttin hafði verið mest lesin þá vikuna.

„Allt gert fyrir aug­lýsingar og flettingar,“ sagði Kristinn Rúnar.

Haft var sam­band við blaða­mann sem fjar­lægði myndina og setti við að hann ætti við geð­ræn vanda­mál að stríða. Kristinn segir að honum hafi ekki fundist það ekki vel orðað og hafði sam­band við blaða­mann. Sem ekki svaraði.

Vonast til þess að viðmið aðstoði við umfjöllun

Sem svo leiddi til seinna at­viksins. En árið 2018 hitti hann áður­nefndan blaða­mann á Bryggjunni og spurði af hverju hann svaraði ekki og sagði honum að hans um­fjöllun ali á for­dómum.

Hann hafi daginn eftir skrifað um málið á Face­book, og hafi fengið við því frá­bær við­brögð. En hafi svo séð frétt sem hafði verið skrifuð á dv.is þar sem hann var sagður hafa „veist að“ blaða­manni. Hann segir það ekki hafa sýnt fram á hvernig að­stæður raun­veru­lega voru og gefið í skyn að hann hafi ráðist á hann. Hann hafði því sam­band við rit­stjóra sem sagði að hægt væri að rétt­læta fyrir­sögn og um­fjöllun.

Kristinn segir að hann hafi verið sár yfir þessari um­fjöllun og gagn­rýnir að fréttin hafi verið sett þannig upp að hann hafi verið í maníu og ráðist á blaða­mann. Hann segist binda vonir til þess að við­miðin, sem kynnt voru í dag, verði til þess að hann lendi ekki aftur í slíkri um­fjöllun.

Fjallað var um viðmiðin fyrr í vikunni á vef Fréttablaðsins. Hægt er að kynna þau sér nánar hér að neðan.