Það er mýta að rafbílar séu óumhverfisvænni en hefðbundnir bensín- og dísilbílar. Þó að kolefnisfótspor rafbíla við framleiðslu sé hærra þá eru bensín- og dísilbílar fljótir að fara fram úr þeim.

Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem gerð var fyrir Orku náttúrunnar. Í ljós kemur að bílar sem brenna jarðefnaeldsneyti losa 4 til 4,5 sinnum meira af gróðurhúsalofttegundum allt frá framleiðslu og yfir „líftíma“ sinn sé miðað við sambærilega rafbíla, er þeim er ekið á Íslandi. Er þá miðað við að þeim sé ekið 220.000 kílómetra. Í skýrslunni er ekki horft til losunar gróðurhúsalofttegunda við förgun rafbíla en þó sagt að áhrifin séu í versta falli innan við 2 prósent af heildarlosun bílsins.

Berglind Rán Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri ON, segir ánægjulegt að geta kveðið niður mýtur um rafbíla með ítarlegri skýrslu.

„Eitt helsta markmið okkar hjá ON við gerð þessarar skýrslu var að skoða hvort helstu mýtur um rafbíla ættu við rök að styðjast. Niðurstöður skýrslunnar taka af allan vafa um að rafbílar eru mjög umhverfisvænn kostur hér á Íslandi,“ fullyrðir Berglind.

Miklu máli skiptir upp á kolefnisfótsporið hvernig raforka í rafbíla er framleidd. Ólíkt mörgum öðrum löndum er öll raforka á Íslandi umhverfisvæn. Þess vegna sé Ísland kjörland til rafbílanotkunar út frá umhverfissjónarmiðum.

„Á hnattræna vísu dregur það úr heildarlosun gróðurhúsalofttegunda að aka rafbíl á Íslandi. Það er okkur mikil hvatning til að leggja okkur enn frekar fram um að auka hlutdeild rafbíla með fræðslu og áframhaldandi uppbyggingu innviða fyrir rafbíla,“ segir Berglind Rán Ólafsdóttir.