Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk um helgina tilkynningu vegna stuðningsmanns ensks fótboltaliðs.

Lið mannsins var ekki að standa sig vel sem varð til þess að maðurinn reiddist mjög og virðast óhljóð hafa komið úr íbúð hans. Þar af leiðandi hringdu nágrannar mannsins í lögreglu, en í tilkynningu frá lögreglu segir að þeir hafi „óttast hið versta.“

„Stuðningsmaður ensks knattspyrnuliðs [...] missti stjórn á skapi sínu þegar lið hans fékk háðuglega útreið á laugardag. Maðurinn var að horfa á leikinn sjónvarpi og reiddist mjög, með tilheyrandi hljóðum, þegar fór að síga á ógæfuhliðina og mörkunum rigndi í vitlaust mark. Við þetta hringdu nágrannar stuðningsmannsins í lögreglu enda óttuðust þeir hið versta.“ segir í tilkynningu lögreglu.

Fram kemur að þegar lögregla kom á vettvang hafi ástandið róast. „Og er vonandi að maðurinn nái að halda stillingu sinni næst þegar illa gengur hjá hans mönnum á fótboltavellinum.“ segir í færslu lögreglu.

Líklegt er að umræddur einstaklingur sé stuðningsmaður Manchester United, en liðið tapaði stórt ,eða 4-0, á móti liði Brentford um helgina.