Lýðheilsustofnun Noregs, FHI, færði í gær fyrir því að ef ekki yrði gripið til hertra aðgerða í sóttvarnarmálum mætti búast við nítíu til þrjú hundruð þúsund smitum á degi innan þriggja vikna.

Á heimasíðu stofnunarinnar segir að Ómíkron-afbrigðið sé að ná fófestu í landinu og eigi eftir að verða algengasta afbrigðið innan skamms.

Fyrir vikið óttast stofnunin að bylgja nýrra smita af Ómíkron-afbrigðinu eigi eftir að hafa veruleg áhrif á daglegt líf í Noregi.

Þótt að ekki sé komið á hreint hvort að einstaklingar sem smitist af Ómíkron verði veikari en aðrir sé líklegt að með fleiri smitum fjölgi innlögnum á sjúkrahús sem eykur álag á heilbrigðiskerfið.

Tilkynnt var í gær að aðgerðir yrðu hertar í Noregi en faraldurinn hefur verið í mikilli sókn undanfarnar vikur. Nýgengni smita sem reiknast út frá smit á hverja hundrað þúsund íbúa, var í gær 934. Til samanburðar er nýgengni smita hér á landi 454.

Meðal aðgerða sem gripið var til var bann á sölu áfengis á veitinga- og skemmtistöðum og gististöðum næstu fjórar vikur.

Ákvörðun norsku ríkisstjórnarinnar var tekin í samráði við Lýðheilsustofnun Noregs sem óttast að Ómíkron-afbrigðið setji heilbrigðiskerfi Noregs á hliðina stuttu fyrir jól.