Tekin hefur verið ákvörðun innan Háskóla Íslands (HÍ) um að nemendur í starfstengdu námi fyrir fólk með þroskahömlun fái að brautskrást með öðrum nemendum skólans laugardaginn 25. júní næstkomandi. Þetta staðfestir Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, í samtali við Fréttablaðið.

Nemendur í umræddu námi útskrifast með diplómagráðu og hafa hingað til útskrifast með öðrum nemendum háskólans sem einnig útskrifast með diplómu. Í ár útskrifast ekki aðrir nemendur með slíka gráðu og komu þá upp hugmyndir innan háskólans um að nemendur í starfstengdu námi fyrir fólk með þroskahömlun yrðu brautskráðir annan dag en aðrir nemendur skólans, ein tillagan var mánudagurinn 27. júní.

„Mér fannst mjög ósanngjarnt að við ættum að útskrifast ein á mánudegi en allir hinir fengju að útskrifast á laugardegi og að eina ástæðan væri sú að við værum fötluð. Það heldur enginn útskriftarveislu á mánudegi,“ segir Matthildur Inga Samúelsdóttir, nemandi í starfstengdu námi fyrir fólk með þroskahömlun.

Hún hefur ásamt samnemendum sínum látið í ljós óánægju sína varðandi aðgreiningu á brautskráningardaginn og segist virkilega ánægð með niðurstöðu háskólans. „Ég er mjög ánægð með þetta og finnst æðislegt að við höfum náð að vinna þessa baráttu,“ segir Matthildur.

„Við sem fatlaðir einstaklingar erum ekki minni manneskjur en aðrir og ættum að hafa fullan rétt til þess að útskrifast með hinum nemendum skólans, bara eins og allir aðrir,“ bætir hún við.

Matthildur segir að „nám án aðgreiningar“ sé meðal einkunnarorða námsins og hefði farið svo að brautskráningu nemenda væri skipt upp hefði verið gengið þvert á þau orð. „Það hefði verið mjög lélegt og í rauninni fordómar gagnvart okkur.“

Ágúst Arnar Þráinsson, verkefnastjóri á menntavísindasviði HÍ.

Ágúst Arnar Þráinsson, verkefnastjóri á menntavísindasviði HÍ, segir að um stórt skref í átt að jafnrétti allra til náms innan háskólans sé að ræða. „Þetta snýst ekki um að það þurfi að tollera þennan hóp sérstaklega heldur að þau fái að sitja við sama borð og aðrir og útskrifast með samnemendum sínum,“ segir hann.

„Þetta er stór dagur í lífi allra nemenda og ekki síst nemenda í þessu ákveðna námi en fyrir flest þeirra er þetta æðsta prófgráða sem þeim stendur til boða,“ segir Ágúst.

Matthildur segist virkilega spennt fyrir útskriftardeginum og stefnir að því að halda partí laugardaginn 25. júní. Eftir útskrift stefnir hún að því að vinna með börnum. „Ég er á leikskólalínu í náminu og mig langar mikið að vinna á leikskóla.“