Páll Óskar Hjálmtýsson byrjaði að taka PrEP í júní 2018 en þá hóf Landspítalinn tilraunaverkefni um notkun þess og lyfjagreiðslunefnd samþykkti niðurgreiðslu. Páll Óskar hafði heyrt um lyfið og prufukeyrslu þess í Bandaríkjunum, um sex árum áður en þar hafði nýsmitum fækkað verulega. Palli var einn af fyrstu Íslendingunum sem fékk að prófa lyfið.

Árið 1987 hóf Páll Óskar að stunda kynlíf með karlmönnum, í eyðnifaraldrinum miðjum. „Við vorum svo hræddir og vissum svo lítið. Við þorðum varla að þvo á okkur hendurnar á almenningssalernum eða drekka úr sama glasi og annað fólk. Óttinn heltók okkur,“ segir hann. „Um leið og ég byrjaði á PrEP fann ég þennan gamla ótta leka úr líkama mínum og sál.“

Töluvert mörg ár eru síðan meðferðarlyf við HIV urðu það góð að þau gátu haldið sjúkdómnum niðri. En smitin sjálf hurfu samt ekki. Páll Óskar segir að þetta hafi haft sín áhrif, sérstaklega innan hommasamfélagsins.

„Síðan sjúkdómurinn gerði fyrst vart við sig hefur verið veggur á milli okkar ósmituðu hommanna og hinna smituðu. Þessi veggur orsakaði félagslega einangrun okkar á milli,“ segir hann. „Ég held að hommasamfélagið verði sterkara með tilkomu þessa lyfs.“

Um 140 menn eru í virkri notkun í dag. Þeir koma í skoðanir á þriggja mánaða fresti og finnast þá aðrir kynsjúkdómar séu þeir fyrir hendi. Til að fá að nota lyfið þarf viðkomandi að fylla út krossapróf, um meðal annars kynhneigð og kynhegðun. Í dag eru aðeins samkynhneigðir menn sem eiga kost á að nota PrEP en Páli Óskari finnst að allir sem séu kynferðislega virkir og elska að stunda kynlíf með mörgum bólfélögum ættu að fá tækifæri til að nota lyfið, burtséð frá kyni, kynvitund eða kynhneigð.

„Eftir að ég byrjaði á lyfinu og fór í þessar reglulegu skoðanir hef ég verið algerlega öruggur um mitt kynheilbrigði. Ég er prófaður fyrir HIV, sýfilis, klamýdíu, lekanda og fleiri kynsjúkdómum, sem ég annars tékkaði á kannski á 6 mánaða til árs fresti. Ég fæ ekki að taka PrEP eftirlitslaust og eftirlitið skiptir hér gríðarlegu máli,“ segir hann. „Þessu fylgir mikið frelsi. Ég hef engar áhyggjur af sjálfum mér eða að smita bólfélaga minn. Loks núna er ég að fá að lifa áhyggjulausu lífi, sem ég hef ekki fengið að lifa síðan 1987. Óttinn við HIV orðinn fullkomlega ástæðulaus.“

140 íslenskir menn nota PrEP. Nordicphotos/Getty
Nordicphoto/Getty

Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítalans, hefur umsjón með PrEP-meðferðinni og hafði frumkvæði að því að fá hana samþykkta. Ísland er mjög framarlega í heiminum þegar kemur að innleiðingu PrEP og er eitt af fimm fyrstu Evrópulöndunum sem það gera. Vísindaleg rannsókn á notkuninni hefur ekki enn farið fram en Már segist hafa tilfinningu fyrir því að reynslan sé góð.

„Fræðilega séð væri hægt að uppræta HIV ef allir með þekkt smit og áhættuhegðun væru meðhöndlaðir,“ segir Már. „Vandinn er sá að til eru einstaklingar sem falla ekki í þessa hefðbundnu hópa.“

Hið opinbera setur þau skilyrði að aðeins samkynhneigðir menn séu gjaldgengir. En fyrirspurnir hafa borist frá fólki í áhættuhópum, til dæmis mönnum sem stunda kynlíf með vændiskonum í Suðaustur-Asíu. Már segir einnig erfitt að ná til þeirra sem stunda kynlíf með bæði körlum og konum.

„PrEP er lyf sem hefur áhrif á fjölgun HIV-veirunnar. Það gerir ekkert í líkamanum þínum nema að hann verði útsettur fyrir veirunni,“ segir Már. „Samt sem áður ráðleggjum við samkynhneigðum mönnum að nota áfram smokka, þó að þeir séu á lyfinu, vegna annarra kynsjúkdóma.“

Samkvæmt Má eru litlar aukaverkanir sem fylgja lyfinu. Einstaka menn fá skerðingu á nýrnastarfsemi eða beinþynningu við langvarandi notkun. „Kostirnir eru hins vega ótvíræðir. Samkvæmt erlendum rannsóknum forðum við einu nýsmiti ef þrettán manns nota lyfið,“ segir Már.

Lyfið kostar nokkra tugi þúsunda króna á mánuði og er að fullu niðurgreitt af Tryggingastofnun, en skoðanirnar eru forsenda fyrir því að stofnunin fellst á að greiða. Fyrir utan heilsufarslega hættu eru meðferðarlyfin sjálf mun dýrari. „Það er gríðarlegt hagsmunamál fyrir okkur öll að draga úr nýsmiti,“ segir Már. „Þetta er gríðarlegt framfaraskref og líklegt að það geri bólusetningar við HIV, sem er verið að rannsaka, óþarfar.“