Ótti Ís­lendinga við CO­VID-19 smit hefur aldrei mælst jafn lítill frá því að far­aldurinn hófst, sam­kvæmt Þjóðar­púls Gallup daganna 2. til 12. júlí

Alls sögðust 37% svar­enda óttast það mjög lítið að smitast af CO­VID-19 en er það mikil hækkun frá síðasta mánuði þegar einungis 19% óttuðust smit mjög lítið. Þá voru 31% sem óttuðust smit frekar lítið, 20% sögðu hvorki né og einungis 9% frekar mikið.

Á­hyggjur af heilsu­fars­legum á­hrifum hafa einnig aldrei verið minni og mældust síðast jafn litlar í lok maí í fyrra. Alls sögðust 41% svar­enda hafa frekar eða mjög litlar á­hyggjur af heilsu­fars­legum á­hrifum CO­VID-19.

Það sama má segja um á­hyggjur af efna­hags­legum á­hrifum CO­VID-19 á Ís­landi en þær hafa ekki verið jafn litlar síðan í mars 2020. Á­hyggjur af efna­hags­leg á­hrifunum mælist hins vegar meiri en á­hyggjur af smitum.

Kvíði aldrei minni vegna COVID-19

Einungis 8% höfðu mjög litlar á­hyggjur af efna­hags­legu á­hrifunum, 23% frekar litlar, 32% sögðu hvorki né. Þá höfðu 32% svar­enda frekar miklar á­hyggjur og 5% mjög miklar á­hyggjur.

Ís­lendingar telja al­mennt að al­manna­varnir og heil­brigðis­yfir­völd séu að gera hæfi­lega mikið, og þeim fækkar sem segja þau vera að gera of lítið.

Aldrei hafa jafn fáir sagst finna fyrir kvíða vegna CO­VID-19. Fólk hefur að­eins einu sinni áður sagst við­hafa minna breyttar venjur vegna CO­VID-19, í mars í fyrra, og einu sinni í jafn miklum mæli, í júlí í fyrra.

Þeim fækkar sem þvo/spritta hendur sínar og um­hverfi oftar eða betur, nota grímu eða hanska, forðast faðm­lög/kossa eða handa­bönd, hósta/hnerra síður út í loftið eða í lófa, kaupa inn í meira magni, forðast fjöl­farna staði og/eða fjöl­sótta við­burði, forðast að eiga ó­þarfa sam­skipti við annað fólk og sem vinna heiman frá sér.