Ótti lands­manna við að smitast af CO­VID-19 hefur aukist mikið að undan­förnu og er nú á­líka mikill og um mánaða­mótin mars/apríl. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýjum Þjóðar­púlsi Gallup.

Um var að ræða könnun á við­horfi al­mennings til ýmissa þátta sem tengjast kórónu­veirufar­aldrinum, en könnunin var fram­kvæmd dagana 21. júlí til 2. ágúst. Þátt­tak­endur voru valdir af handa­hófi úr við­horfa­hópi Gallup, en alls svöruðu 846 ein­staklingar könnuninni.

Sam­hliða aukinni tíðni smita hér á landi hefur ótti al­mennings vegna veirunnar aukist á nýjan leik. Þannig hafa á­hyggjur af bæði heilsu­fars­legum og efna­hags­legum á­hrifum CO­VID-19 á Ís­landi aukist mikið og eru þær nú á­líka miklar og um mánaða­mótin apríl/maí.

Þeim fjölgar sem telja al­manna­varnir og heil­brigðis­yfir­völd vera að gera of lítið til að bregðast við CO­VID-19. 20% að­spurðra segjast telja að verið sé að gera að­eins of lítið en 4% telja að verið sé að gera allt of lítið. 65% telja að­gerðir hæfi­legar saman­borið við 86% í Þjóðar­púlsi Gallup sem gerður var dagana 2. til 12. júlí.

Þeim fjölgar einnig sem finna fyrir kvíða vegna CO­VID-19. 19% segjast finna fyrir frekar miklum kvíða og 4% mjög miklum kvíða, öllu fleiri en í könnuninni sem gerð var fyrri hluta júlí­mánaðar. Kvíði lands­manna vegna CO­VID-19 hefur ekki mælst jafn mikill síðan um mánaða­mótin mars/apríl.