Nem­endum í markaðs­fræðum við Há­skólann í Reykja­vík var nokkuð brugðið þegar kennsla var stöðvuð síð­degis og einn nemandi úr nokkuð stórum hópi var beðinn um að yfir­gefa skóla­bygginguna, fara heim og halda sig þar í tvær vikur.

Nem­endur sem Frétta­blaðið hefur rætt við segja konu úr þeirra hópi sem er ný­komin heim frá Ítalíu hafi verið beðin um að drífa sig heim þar sem talið er að hún tengist Ís­lendingnum sem hefur greinst með CO­VID-19. Greint var frá því fyrr í dag að íslenskur karlmaður á fimmtugsaldri hefði greinst með veiruna.

Sótt­varnar­læknir hefur gert öllum Ís­lendingum, sem koma til landsins frá skil­greindum á­hættu­svæðum, að halda sig heima í tveggja vikna sótt­kví og reyna þannig að lág­marka út­breiðslu veirunnar.

Þeim nem­endum sem Frétta­blaðið hefur náð tali af ber saman um að nokkur uggur hafi verið í fólki þegar konan yfir­gaf stofuna í snatri eftir að kennari hafði stöðvað hópa­vinnu þar al­var­legur í bragði.

Ekkert fár hafi þó orðið og að lokum varð úr að kennslu var haldið á­fram en á­kveðið að hætta snemma í dag. Sam­kvæmt heimildum Frétta­blaðsins er þetta ekki eina dæmið um mann­eskju sem ný­komin er heim til Ís­lands af á­hættu­svæði og hefur verið gert að yfir­gefa vinnu­stað sinn eða skóla og fara í heima­sótt­kví.

Nú síð­degis barst nem­endum í tví­gang tölvu­póstur frá skóla­stjórn vegna málsins. Svo aftur klukkan 15:30. Þar var nem­endum, sem ný­komnir eru frá svæðum þar sem veiran hefur verið greind, eða hyggja á ferða­lög þangað, bent á að fylgja leið­beiningum frá Em­bætti land­læknis.

Ekki náðist í Eirík Sigurðsson, forstöðumann samskiptasviðs HR við vinnslu þessarar fréttar. Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, vildi ekki tjá sig um málið í samtali við fréttastofu.