Tólf þúsund manns þurfa að flytja til Íslands á næstu fjórum árum, að því er fram kemur í nýrri rannsókn Samtaka atvinnulífsins á vinnumarkaðnum. Störfum fjölgar um fimmtán þúsund á þessum tíma, en náttúrleg fjölgun vinnuafls á sama tíma nemur aðeins þrjú þúsund manns.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri samtakanna, segir skort á vinnuafli geta hamlað hagvexti hér á landi á næstu árum og viðspyrnan úr faraldrinum, sem bitnað hefur harkalega á atvinnulífinu, geti því orðið veikari en ella.

„Rætur hagvaxtar liggja í því að við getum mannað störf framtíðarinnar,“ segir Halldór og metur það svo að vinnuaflsskorturinn nú um stundir sé „með því brattara sem við höfum tekist á við.“ Hann segir vandann einkum vera í ferðaþjónustu, veitingageira og byggingariðnaði.

Sá veruleiki sem blasir við að íslenskar fjölskyldur eignast æ færri börn á tímum aukinna umsvifa í atvinnulífinu kallar á stóraukið innflutt vinnuafl. Ef það nær að fylla í skarð Íslendinga má ætla að árið 2025 verði fjórði hver maður á vinnumarkaði af erlendu bergi brotinn.

En vandinn er margþættari og veldur húsnæðisskortur þar miklu. Kristófer Oliversson, formaður Félags fyrirtækja í hótelrekstri og gisti­þjón­ustu, segir þann skort þegar vera farinn að hamla komu erlends vinnuafls til landsins. Undir það tekur Jóhannes Þór Skúlason, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar.

„Þetta verður ein af erfiðustu áskorununum sem við stöndum frammi fyrir á næstu árum. Okkur vantar fleiri starfsmenn núna en fyrir faraldurinn. En, hvar á að koma þeim fyrir?“ spyr Jóhannes. „Það er þegar orðið vandamál – og sumarið enn langt undan. Það er bara ekkert húsnæði til fyrir fólkið sem okkur vantar.“