Úkraínumenn óttast að kólera kunni að brjótast út eða hafi þegar brotist út í borginni Maríúpol, sem féll í hendur rússneska innrásarhersins eftir harða bardaga í lok maí. Íhor Kúzín, helsti hreinlætislæknir úkraínsku stjórnarinnar, varaði við því á blaðamannafundi í gær að fjöldagrafir og vatnsskortur í borginni væru að skapa kjöraðstæður fyrir útbreiðslu kóleru og annarra sjúkdóma eins og blóðkreppusóttar.

Kúzín sagði að hreinlæti og sóttvörnum væri verulega ábótavant eftir hildarleikinn sem geisaði um Maríúpol mestalla síðustu tvo mánuði. „Við fáum oft upplýsingar um grafreiti á óviðeigandi stöðum, sem geta leitt til vatnsmengunar,“ sagði Kúzín. „Þess vegna verður fólk sem býr á svona stöðum að fara afar varlega þegar það notar vatn úr brunnum og vatnsveitum. Slíkt vatn verður fyrst að sæta hitameðferð.“

Petro Andrjúsjtsjenko, ráðgjafi borgarstjóra Maríúpol, tók í sama streng í dag og sagði að drykkjarvatn borgarinnar hefði verið mengað af grotnandi rusli og líkum. „Orðið kólera heyrist núna ekki bara hjá okkur, heldur líka innan úr borginni,“ sagði Andrjúsjtsjenko í viðtali á úkraínsku sjónvarpsstöðinni Snídanok z 1+1. Sergei Orlov, varaborgarstjóri Maríúpol, tók enn dýpra í árina og sagði við fréttamiðilinn i að borgin væri „bókstaflega að drukkna í rusli og skólpi“ og að lík væru grafin í nánast hverjum einasta garði. Talið er að rúmlega 22.000 óbreyttir borgarar hafi látist í orrustunni um Maríúpol.