Staðan í Afgan­istan heldur á­fram að versna þar sem liðs­menn Talí­bana halda á­fram í sinni sókn og taka nú yfir hverja borgina af fætur annarri en Neyðar­stjórn At­lants­hafs­banda­lagsins, NATÓ, fundaði um málið í dag.

Í til­kynningu Jens Stol­ten­berg, fram­kvæmda­stjóra NATÓ, eftir fundinn kom fram að vel væri fylgst með stöðu mála og að þau myndu halda á­fram að styðja við af­gönsk yfir­völd. Með­lima­ríki NATÓ væru þó á­fram mjög á­hyggju­full vegna fram­göngu Talí­bana, sem hafa til að mynda ráðist á borgara.

„Talí­banarnir þurfa að skilja að þeir verði ekki viður­kenndir af al­þjóða­sam­fé­laginu ef þeir beita valdi til að ná stjórn yfir landinu. Við munum á­fram skuld­binda okkur til að styðja við pólitíska lausn á á­tökunum,“ sagði Stol­ten­berg.

Þurfa einnig að huga að Afgönum utan NATÓ

Að sögn Stol­ten­berg er það helsta mark­mið banda­lagsins að tryggja öryggi em­bættis­manna NATÓ. Öryggis- og varna­mála­fræðingurinn Brynja Huld Óskars­dóttir, sem var eitt ár í Afgan­istan á vegum NATÓ, kallar eftir því að einnig verði hugað að af­gönskum em­bættis­mönnum sem hafa starfað náið með em­bættis­mönnum NATÓ í gegnum tíðina.

„Bók­staf­lega allir sem ég starfaði með í Afgan­istan eru nú í ör­væntingu sinni að leita til kollega og Af­gana í svipaðri stöðu til að hafa uppi á fólki og sjá hverjir eru í landinu og hverjir ekki. Hverjir falla undir sér­staka ferða­á­vísun eða sér­stakan brott­flutning,“ skrifar Brynja í færslu á Face­book síðu sinni.

Hún vísar til þess að með­lima­ríki NATÓ á borð við Banda­ríkin, Bret­land og Þýska­land hafi rætt að bjóða af­gönskum starfs­mönnum eins og túlkum og á­lits­gjöfum sér­stakt ferða­leyfi en talið er að sá hópur sé í sér­stakri hættu á of­beldi af hálfu Talí­bana vegna starfs síns.

„Vanda­málið sem ég hef ekki séð nein með­lima­ríki á­varpa er að þetta er ekki að­eins um okkar starfs­fólk og fólk sem starfaði beint fyrir okkur, NATÓ, heldur einnig um mót­aðila okkar í Afgan­istan,“ segir Brynja og bendir þar til að mynda á starfs­menn ráðu­neyta í Afgan­istan og fólk sem starfaði innan al­þjóða­sam­fé­lagsins og er í mikilli hættu.

Þá vísar hún til þess að konur í þeim hópi séu nú í sér­stak­lega við­kvæmri stöðu, eins og svo oft áður. „Þetta er hópurinn sem mér finnst við vera að yfir­gefa, hópurinn sem ég óttast um þar sem Talí­banar sækja fram á ó­gur­legum hraða á meðan banda­menn eru kallaðir til baka frá Afgan­istan.“

Staða kvenna almennt í Afganistan slæm

Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, António Guterres, lýsti einnig yfir áhyggjum yfir stöðu kvenna og stúlkna í Afganistan en síðast þegar Talibanar voru við völd þurftu konur að hylja andlit sín og vera í fylgd karlmanna þegar þær fóru úr húsi.

Guterres vísaði til þess að Talíbanar hafi nú skert mannréttindi á svæðum þar sem þeir hafa nú náð völdum, þá sérstaklega mannréttindi kvenna og blaðamanna. „Það er sérstaklega skelfilegt og átakanlegt að sjá fréttir af því að réttindi sem afganskar konur og stúlkur hafa barist fyrir, séu hrifsuð af þeim.“