Í­búar í suður­hluta Flórída í Banda­­­ríkjunum standa nú frammi fyrir breyttu lands­lagi eftir að felli­bylurinn Ian, einn sá öflugasti sem mælst hefur í Banda­­­ríkjunum, skall þar á af mikilli hörku á mið­viku­­­dag. Heimili runnu í haf út, bátar losnuðu frá bryggju og heilu hverfin og borgirnar eru rústir einar. Enn sem komið er hafa yfir­­völd einungis greint frá einu dauðs­­falli en óttast er að tugir hafi látist.

Borgin Fort Myers varð sér­stak­lega illa úti og er gríðar­legt upp­byggingar­starf þar fram undan. Vind­hraði náði allt að 67 metrum á sekúndu og flóð­bylgjur um fimm og hálfs metra hæð. Skyndi­­­flóð hafa skollið á víða í Flórída og sagði em­bættis­­maður í Semin­o­­le-sýslu, norð­austur af borginni Or­lando, að þau væru „án for­­dæmis og sögu­­leg“.

Eyði­leggingin í borginni Fort Myers er gríðar­leg.
Fréttablaðið/Getty

Yfir­völd í Georgíu, Suður-Karó­línu og Norður-Karó­línu hvetja íbúa til að undir­búa sig undir að Ian komi þar á land innan skamms þó að kraftur hans hafi minnkað að­eins frá því sem var á mið­viku­dag, vind­hraðinn nær nú um 39 metrum á sekúndu. Búist er við að hann nái landi í Suður-Karó­línu í dag en í gær lýsti Joe Biden Banda­ríkja­for­seti yfir neyðar­á­standi í ríkinu.

Enn sem komið er hafa yfir­völd einungis greint frá einu dauðs­falli af völdum Ian.
Fréttablaðið/Getty

Enn sem komið er hafa yfir­völd einungis greint frá einu dauðs­falli, 72 ára karl­maður drukknaði í Deltona er hann freistaði þess að tæma úr sund­laug sinni. Yfir­völd óttast að um­tals­verður fjöldi fólks hafi látist. Sam­kvæmt NBC eru minnst tugur látinn en CNN segir minnst 17 manns látin. Björgunar­sveitir að­stoðuðu meira en 700 manns er felli­bylurinn gekk yfir í Lee og Char­lotte-sýslum í Flórída. Í Lee-sýslu búa 760 þúsund manns og um 186 þúsund manns í Char­lotte-sýslu.

Í­búar í Fort Myers standa frammi fyrir breyttu lands­lagi.
Fréttablaðið/Getty

Borgin Fort Myers, með um 90 þúsund íbúa, er í Lee-sýslu og varð sér­stak­lega illa fyrir barðinu á Ian. Borgin er nánast rústir einar og nú þegar veðrinu hefur slotað þar er eyði­leggingin ört að koma í ljós. Um­fang hennar er gríðar­legt og ljóst er að mikið upp­byggingar­starf er fyrir hendi. Ron DeSantis, ríkis­stjóri Flórída, segir að mörg ár taki að endur­reisa borgir og byggðir sem felli­bylurinn fór yfir. Eyði­leggingin sé „ó­lýsan­leg“ og út­lit fyrir „um­tals­vert“ mann­fall af völdum Ian.

Stórar báta­hafnir eru í Fort Myers og eru þær og bátarnir rústir einar.
Fréttablaðið/Getty

Enn eru meira en tvö milljón heimili og fyrir­tæki án raf­magns sam­kvæmt vef­síðunni PowerOuta­ge.us og gert er ráð fyrir að margar vikur taki að lag­færa raf­kerfi. Hvergi er raf­magn í Lee og Char­lotte-sýslum.

Brian Gorski er slökkvi­liðs­stjóri í borginni North Port sem er í um 65 kíló­metra fjar­lægð frá Fort Myers. Hann gekk til liðs við slökkvi­lið borgarinnar árið 1976 og hefur mikla reynslu af ofsa­veðri og felli­byljum. Ekkert komist þó í líkingu við Ian og eyði­legginguna sem honum hefur fylgt. „Það er enginn saman­burður. Þetta er ó­trú­legt“, segir hann í sam­tali við Wall Street Journal.

Eyði­leggingin í Fort Myers er ört að koma í ljós.
Fréttablaðið/Getty