Sambýli stangveiðimanna og hestamanna á vegslóða við Elliðaár hefur valdið núningi og nokkrum áhyggjum um öryggi. Forsvarsmenn Stangaveiðifélags Reykjavíkur og hestamannafélagsins Fáks segja félögin hafa gott samstarf og að skilti verði sett upp á svæðinu.

Umræddur slóði er 700 metra langur, vestan við skeiðvöll Fáks. Orkuveita Reykjavíkur byggði hann á sínum tíma að beiðni Stangaveiðifélagsins. Með nýju deiliskipulagi Elliðaárdalsins var ákveðið að Fákur fengi að deila veginum og tengja hann inn í sitt reiðleiðakerfi. Fékk Fákur fjárveitingu, bæði frá Landssambandi hestamanna og Reykjavíkurborg til að laga slóðann.

„Þeir voru mjög fegnir því að vegurinn var orðinn ónothæfur og hár hryggur í honum miðjum,“ segir Dagný Bjarnadóttir, sem sér um reiðleiðamál hjá Fáki. Segir hún samráð við stjórn Stangaveiðifélagsins hafa verið gott. „Þetta er ekkert vandamál. Þeir eru á tímum þegar eru mjög fáir hestar á veginum og öfugt.“

Stangveiðimenn eru þó ekki á eitt sáttir við fyrirkomulagið og eru uggandi yfir því að hestafólki og veiðimönnum, oft á stórum bílum, sé att inn á slóðann sem sé þröngur. Hafa stangveiðimenn meðal annars verið stöðvaðir af hestamönnum sem vilja þá af veginum, vitandi ekki að þeir megi keyra hann.

Lagði Stangaveiðifélagið fram tillögu um að vegslóðanum yrði deilt yfir árið. Stangveiðimenn hefðu hann út af fyrir sig 1. maí til 15. september og hestamenn þess utan. Fákur hafnaði þeirri tillögu.

„Við höfum kynnt það á okkar heimasíðu að þetta sé slóði sem við deilum með stangveiðimönnum og allir eiga að vita það,“ segir Dagný. „Við beinum því til reiðskólanna að fara ekki þennan slóða svo það sé ekki löng lest af reiðskólakrökkum á meðan menn eru að flýta sér milli veiðistaða.“

Jón Þór Ólason, stjórnarformaður Stangaveiðifélagsins, hafnar því einnig að ágreiningur sé milli veiði- og hestafólks út af slóðanum. Hann segir að verið sé að útbúa skilti til að tryggja betra öryggi. „Það er verið að ræða um að tryggja það að árekstrar verði ekki á milli manna. Við erum ekki í stríði við Fák,“ segir Jón Þór.

Eins og Dagný segir hann að skilaboðum verði komið til þeirra sem veiða við Elliðaárnar. „Þetta breytir því ekki að okkar veiðimenn geti keyrt þarna. Það þarf bara að sýna aukna aðgæslu,“ segir hann.