Ábúandi á Laxamýri í Norðurþingi óttast riðu­smit og ágang fugla vegna dreifingar gors úr sláturhúsi í Ærvíkurhöfða. Skipulags- og framkvæmdaráð mælist til þess að dreifingunni, sem hófst í fyrra, verði haldið áfram í ár og smithætta eigi ekki að geta verið til staðar, sé hún rétt framkvæmd.

„Við hörmum þetta og gerum ráð fyrir að bærinn taki þá á sig áhættuna og hugsanlegar skaðabætur verði af þessu tjón,“ segir Jón Helgi Björnsson, bóndi á Laxamýri og forstjóri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands.

Í ágúst heimilaði sveitarstjórn kjötvinnslunni Norðlenska að dreifa gori úr sláturtíðinni á Ærvíkurhöfða í landi Saltvíkur sunnan við Húsavík til uppgræðslu. Þar hyggst Kolviður, verkefni Skógræktarinnar og Landverndar, planta 270 þúsund trjám á fimm árum.

Jón Helgi sendi kvörtun til sveitarstjórnar vegna dreifingarinnar. Hún færi fram í mikilli nálægð við túnin á Laxamýri þar sem er mikið af fé og er heyjað fyrir gripi. „Það er helst riðan sem við erum hrædd við, en líka aðra sjúkdóma,“ segir Jón Helgi.Þá telur Jón Helgi að ásókn fugla, bæði máva og hrafna, sé óheppileg þar sem dreifingin fari fram nálægt ósum Laxár í Aðaldal.

„Þessi staðsetning verður að teljast furðuleg í ljósi þess hversu mikið land sveitarfélagið á skammt frá sem er ekki nálægt neinum búskap,“ segir Jón Helgi. „Landið sem verið er að dreifa á núna er ekki mjög stórt og getur ekki enst í mörg ár.“

Jón Helgi Björnsson bóndi á Laxamýri.

Heimild Norðurþings til dreifingarinnar var háð því að aðeins gori yrði dreift en ekki blóði, byggt á umsögn Matvælastofnunar frá því í júlí. Gorinn sem slíkur er flokkaður eins og annar úrgangur úr sauðfé og ekki hætta á smiti eins og með blóði. Silja Jóhannesdóttir, formaður skipulags- og framkvæmdaráðs Norðurþings, segir bæinn hafa fengið ábendingu um að blóð hafi sést á svæðinu. Það hafi verið kannað.

„Það væri alvarlegt ef ekki væri verið að fara eftir því sem lagt var upp með, en við höfum enga staðfestingu á því í myndaformi eða slíku. Okkar starfsmaður gekk um svæðið og sá ekkert blóð. Við næstu dreifingu verður fylgst vel með þessu,“ segir Silja. Til sé heimild til að stöðva verkefnið ef upp kemur að blóði sé dreift.

Náttúrustofa Norðausturlands hefur fylgst með dreifingunni og tekið eftir ásókn fugla, aðallega máva. En hún sé þó tímabundin og telur ráðið ásóknina ekki ástæðu til að hætta við verkefnið. Fuglar sæki nú þegar í Laxársvæðið.

„Þegar var búið að veita Kolviði leyfi til skógræktar á Ærvíkurhöfða. Við sáum samlegð í því að nota gorinn frá Norðlenska í því verkefni í samstarfi við Kolvið,“ segir Silja, aðspurð um hvers vegna afskekktari lönd sveitarfélagsins hafi ekki verið valin.