Vísinda­menn í Kína segja að fylgjast þurfi vel með nýjum stofni flensu­veiru sem fundist hefur í svínum þar í landi. Reu­ters og BBC greina frá þessu.

Í frétt Reu­ters er tekið fram að ekki sé talin þörf á að hafa miklar á­hyggjur að sinni. Vitnað er í vísinda­grein sem birtist í tíma­ritinu Proceedings of the National A­cademy of Sciences, en þar kemur fram að veiran hafi alla burði til að verða að heims­far­aldri nái hún að stökk­breyta sér.

Í frétt BBC er bent á að síðasti svína­f­lensu­far­aldur, árið 2009, hafi náð minni út­breiðslu en óttast var í fyrstu. Ein af lík­legum á­stæðum var sú að margir, sér­stak­lega eldra fólk, voru ó­næmir fyrir veirunni vegna líkinda hennar við aðrar eldri flensu­veirur.

Nýja veiran er sögð líkjast svína­f­lensu­veirunni árið 2009 en þó með á­kveðnum undan­tekningum. Sam­kvæmt niður­stöðum vísinda­mannanna hefur veiran þegar fundist í ein­stak­lingum sem unnið hafa í kín­verskum slátur­húsum. Svo virðist sem veiran geti þó ekki dreift sér milli ein­stak­linga – enn sem komið er að minnsta kosti – og þess vegna sé mikil­vægt að fylgjast mjög náið með henni.

Kin-Chow Chang, prófessor við Nott­hing­ham Uni­versity í Bret­landi, segir að eðli málsins sam­kvæmt séu augu flestra á kórónu­veirunni sem veldur CO­VID-19. „En við megum ekki missa sjónar á öðrum og mögu­lega hættu­legum nýjum vírusum,“ segir hann við BBC.