Grunur leikur á um Covid smit um borð í frystitogaranum Júlíusi Geirmundssyni, í annað sinn á tveimur árum. Einar Valur Kristjánsson, framkvæmdastjóri hraðfrystihússins Gunnvarar, sem gerir út skipið staðfesti þetta í samtali við vefmiðilinn Bæjarins besta í dag. Þar segir að áhöfnin hafi verið skimuð þegar lagt var úr höfn en nú væri grunur um smit og því væri skipið á leið í land.

Togarinn komst í fréttirnar í október árið 2020 þegar hópsmit varð um borð, og skipstjóri tók ákvörðun um að snúa ekki strax til hafnar heldur var siglt með veikan mann um borð í þrjár vikur. Svo fór að 22 af 25 skipverjum veiktust af kórónuveirunni og sumir alvarlega. Lýstu þeir ástandinu um borð sem skelfilegu. Skipverjum var bannað að ræða veikindin við fjölmiðla á meðan túrnum stóð.

Viðbrögð í samfélaginu voru mikil og stéttarfélög sendu frá sér yfirlýsingar vegna málsins. Málið fór næst til rannsóknar lögreglustjórans á Vestfjörðum. Sveinn Geir Arnarson, skipstjóri skipsins játaði sök í Héraðsdómi Vesturlands 14. Janúar í fyrra. Í kjölfarið var hann sviptur skipstjórnarréttindum til fjögurra mánaða og gert að greiða 750 þúsund krónur í sekt.

Í febrúar í fyrra sagði RÚV svo frá því að þrír úr áhöfn togarans hefðu sagt upp störfum, og fleiri íhugðu stöðu sína um borð. Var þetta í kjölfar þess að Sveinn Geir Arnarson hafði verið ráðinn á ný, þá sem stýrimaður um borð, sem er næstráðandi staða á eftir skipstjóra.