Norsk yfirvöld vakta nú sérstaklega óæskilega koparmengun frá sjókvíaeldi í fjörðum landsins eftir að Hafrannsóknastofnunin þar í landi galt varhuga við notkun ásætuvarna sem innihalda koparoxíð á netapoka eldisfyrirtækja.

Fréttablaðið greindi frá því í vikunni að Skipulagsstofnun hér á landi hefði afráðið að notkun sama efnis í kvíum fiskeldisfyrirtækisins Arctic Sea Farm í Patreksfirði og Tálknafirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Efnið er notað til að fæla smádýr frá kvíunum.

„Þessi ákvörðun íslenskra yfirvalda er augljóslega úr takti við það sem frændur okkar Norðmenn eru að gera í mengunarvörnum sínum,“ segir Jón Kaldal, talsmaður Íslenska náttúruverndarsjóðsins, en sjókvíaeldi í Noregi eigi sér lengri og umfangsmeiri sögu en hér við land.

Hann segir að koparmengunin í norskum fjörðum hafi verið orðin óviðunandi fyrir allnokkru og því hafi viðeigandi yfirvöld gripið til sinna ráða. „Í umfjöllun norsku Hafrannsóknastofnunarinnar er bent á að ef fyrirtæki með starfsemi á landi verða uppvís að því að losa umfram tvö kíló af kopar í umhverfið á ári er þeim lokað af yfirvöldum, en til samanburðar má nefna að sjókvíaeldið losar um 1.700 kíló á ári í sjó við Noreg samkvæmt úttekt stofnunarinnar,“ segir Jón og vekur athygli á því að þekking af afleiðingum koparmengunar í sjó sé enn ekki næg.

Engu að síður fari aðrar þjóðir en Íslendingar með gát í þessum efnum. „Sjókvíaeldisfyrirtæki við Ástralíu og Nýja-Sjáland hafa hætt notkun ásætuvarna með koparoxíði vegna mögulegra skaðlegra áhrifa á umhverfið og lífríkið,“ segir Jón Kaldal.