Hraun tók að flæða úr Taal eld­fjallinu á Filipps­eyjum í dag og vara jarð­fræðingar við því að hættu­legt gos geti átt sér stað hve­nær sem er. Greint er frá á vef Guar­dian en tekið er fram að skyndi­leg virkni eld­fjallsins hafi komið vísinda­mönnum á ó­vart.

Þá neyddust yfir­völd til að loka al­þjóða­flug­vellinum í Mani­la, höfuð­borg landsins, með þeim af­leiðingum að hætt var við rúm­lega 240 flug­ferðir, en mikil aska fór í loftið frá eld­fjallinu, sem er sunnan við höfuð­borgina, og náði rúm­lega 100 kíló­metra norðar en borgin.

Þá þurftu rúm­lega 8000 í­búar í grennd við eld­fjallið að yfir­gefa heimili sín en yfir­völd búast við að tala þeirra sem muni þurfa að flýja geti farið upp í hundruð þúsunda.

„Hraði virkninnar á Taal eld­fjallinu kom okkur á ó­vart,“ er haft eftir Mariu Antoniu Bornas, yfir­manni jarð­fræði­stofnunar Filipps­eyja. „Við höfum greint hraun­kviku, sem enn er djúpt í jarð­veginum og hefur ekki náð upp á yfir­borðið. Við eigum enn von á hættu­legu gosi hve­nær sem er.“

Enn sem komið er hafa ekki borist fregnir af því að nokkur hafi látist í ham­förunum né heldur fregnir af skemmdum. Eld­fjallið gaus síðast á áttunda ára­tug síðustu aldar og gaus það þá í fjóra mánuði. Vísinda­menn segja að erfitt sé að gera ráð fyrir hve lengi gos mun standa yfir nú.