Akureyri Oddvitar stjórnmálaflokka á Akureyri lýsa áhyggjum af því að þeir sem minna megi sín á Akureyri muni ekki fá málstað hjá nýjum meirihluta.

L-listinn, sem vann kosningasigur og er með þrjá menn, Sjálfstæðisflokkur og Miðflokkur hafa gefið út yfirlýsingu um að þeir muni ná saman um að skipa meirihluta.

„Það er morgunljóst að á Akureyri verður ekki hugað að neinni félagshyggju næstu fjögur árin,“ segir Hrafndís Bára Einarsdóttir, oddviti Pírata.

Hrafndís Bára segir að L-listinn klifi alltaf á því fyrir kosningar að þeir þurfi ekki að hlíta „boðvaldi að sunnan“ af því að um sérakureyrskt framboð sé að ræða. En nú sýni L-listinn að hann sé bara fyrir útvalinn hóp af Akureyringum. „Og þar eru þeir sem verr standa ekki með á kortinu,“ segir Hrafndís Bára.

Hilda Jana Gísladóttir, oddviti Samfylkingarinnar, tekur undir með að hægri áherslur kunni að verða ráðandi. Hún segist óttast að velferðarmál, umhverfis- og skipulagsmál verði ekki sem skyldi.

„Mér þykir líklegt að mjög mikil áhersla verði á íþróttir og of mikil áhersla miðað við önnur mál,“ segir Hilda Jana. „Ég hef mestar áhyggjur af því að þeir hópar sem minna mega sín muni ekki hafa málsvara.“