Enn þá hefur Landlæknisembættinu ekki tekist að fá upplýsingar frá lýtalæknum um aðgerðir á börnum, svo sem skapa­barmaaðgerðir og brjóstastækkanir. Aðgerðir sem taldar eru fegrunaraðgerðir og ekki greiddar af Sjúkratryggingum Íslands.

Málið hefur verið bitbein á milli Landlæknis og lýtalækna um nokkurt skeið. Félag íslenskra lýtalækna hefur haldið því fram að fyrirspurnir séu of ítarlegar og brjóti persónuvernd sjúklinga og Persónuvernd hefur sagt að þörf sé á skýrari ákvæðum um heilbrigðisskrár.

Embættið óskaði eftir því í byrjun september á þessu ári að heilbrigðisráðuneytið hefji vinnu við endurskoða ákvæði um vinnslu persónuupplýsinga til að hægt verði að brjóta múrinn.

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, hefur haldið málinu á lofti í þinginu í gegnum árin en ekki tekist að fá upplýsingar um fjölda aðgerðanna, þar á meðal þeirra sem gerðar eru á stúlkum undir 18 ára aldri. Hún bar í þriðja skiptið á sjö árum fram fyrirspurn um þetta fyrr í vikunni. Segist hún fá spurningar frá heilbrigðisstarfsfólki, bæði hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum, sem hafi áhyggjur af þessu.

Segist Líneik efast um réttmæti þess að gera slíkar aðgerðir á börnum en hafi þó séð viðtöl við lýtalækna sem bendi til þess að þetta sé stundað. Einnig að auglýsingar frá lýtalæknum bendi til þess. Í ljósi skorts á tölulegum upplýsingum sé þó ekki hægt að fullyrða hvort aðgerðunum sé að fjölga.

„Þegar ég talaði við ljósmæður árið 2013 var tilfinning þeirra sú að þessum aðgerðum hefði fjölgað,“ segir Líneik. „Ég hef ekki orðið mikið vör við kynningarefni frá lýtalæknum síðan fyrr en á þessu ári.“

Líneik lagði fyrst fram fyrirspurn árið 2013 um fjölda aðgerða, svo sem skapabarmaaðgerðir, leggangaþrengingar, endaþarmshvíttun og brjóstastækkanir. Kom þá fram að þó að Landlæknir hefði fengið starfsemisupplýsingar frá 90 prósentum sjálfstætt starfandi lækna, þá væru lýtalæknar ekki þar á meðal. Gilti einu hvort um væri að ræða stúlkur undir 18 eða ekki. Þegar hún bar fyrirspurnina aftur upp árið 2016, höfðu skil á upplýsingum ekki lagast.

„Það er áhyggjuefni að Landlæknir fái ekki upplýsingar um þetta. Nú orðaði ég spurningarnar skýrar hvað varðar stúlkur undir 18 ára því athygli hefur verið vakin á aðgerðum á börnum,“ segir Líneik.

Í svari frá Landlæknisembættinu til Fréttablaðsins segir að unglingar verði sjálfstæðir þjónustuþegar heilbrigðiskerfisins við 16 ára aldur. Þeir geti því leitað til heilbrigðisstarfsfólks án samþykkis eða vitundar foreldra.

„Embætti landlæknis er ekki kunnugt um ákvæði sem banna aðgerðir sem þessar á börnum en slíkt getur ekki verið gert án samþykkis foreldra,“ segir í svarinu.