Breskir ráð­herrar óttast að kórónu­vírusinn geti smitast með prumpi í lokuðu rými, líkt og inni á al­mennings­salerni. Breski miðillinn Telegraph greinir frá málinu. Vísinda­menn segja engin dæmi um þetta.

Segir í um­fjöllun miðilsins að ein­hverjar rann­sóknir hafi bent til þess að vírusinn geti smitast í gegnum saur­gerla. Þetta hafi hins­vegar ekki fengist stað­fest.

Þá ræðir breska blaðið við ráð­herra sem vill ekki láta nafns síns getið. Sá segir að yfir­völd skoði þetta af al­vöru vegna til­vika frá öðrum löndum. Vísar ráð­herrann til Ástralíu þar sem talið er mögu­legt að ein­stak­lingur hafi smitast með þessum hætti á al­mennings­salerni.

Haft er eftir ó­nefnda ráð­herranum að það sé vel þekkt að sumir sjúk­dómar geti dreifst í gegnum skólprör. Tekið er fram í um­fjöllun miðilsins að tals­maður breska for­sætis­ráð­herrans Boris John­son hafi sagt að ráð­herrann hefði ekki heyrt um fregnir af því að vírusinn geti dreifst í gegnum prump.

Þá hefur Telegraph eftir öðrum ráð­herra að lang­sam­lega flest smit meðal ein­stak­linga dreifist í gegnum nef og munn þeirra. Þá segir miðillinn að vísinda­menn hafi snemma hafnað til­gátum um að vírusinn geti dreifst með þessum hætti.

Vitnað er í banda­ríska heil­brigðis­vísinda­manninn Dr. Willi­am Schnaf­fer, sem segir að engin dæmi séu um að vírusinn hafi smitast með þessum hætti. Þá taka banda­rísk sótt­varnar­yfir­völd undir orð prófessorsins.