Fyrir­tækið Amazon brennur það hratt í gegnum starfs­fólk að stjórn­endur hafa á­hyggjur af því að verða uppi­skroppa með fólk á vinnumarkaði. Þetta kemur fram í grein New York Times.

Stór­felld rann­sókn frétta­miðilsins leiddi í ljós að starfs­fólk vöru­húsa Amazon segir upp störfum svo ört að erfitt er að halda í við það með nýjum ráðningum.

Kórónuveirufar­aldurinn hefur drifið upp sölutölur hjá fyrir­tækinu, enda hafa margir viljað versla heiman frá sér í stað þess að fara í búðir. Fyrir­tækið hefur verið þekkt fyrir að borga starfs­fólki sínu vel og hefur jafn­vel verið að bjóða ráðningar­bónusa til að reyna að fá fleiri inn.

Á fjögurra mánaða tíma­bili, frá júlí til októ­ber 2020, réði fyrir­tækið 350.000 nýtt starfs­fólk, svipað marga og í­búa­fjölda Ís­lands. Mikið af þeim entust að­eins í nokkra daga eða vikur.

Fyrir upp­haf far­aldursins var velta á starfs­krafti um 150 prósent á ári. Hluti af á­stæðunni fyrir því að starfs­fólk endist ekki er skortur á mann­legum sam­skiptum, mikið eftir­lit, tíma­pressa, langar vaktir og fá tæki­færi til fram­fara innan fyrir­tækisins.