Eftir að hafa skoðað niðurstöður mótefnamælingar í Indlandi telur yfirmaður læknaráðs indverska heilbrigðiseftirlitsins að meira en sextíu milljónir Indverja hafi smitast af COVID-19.

Indland er sú þjóð sem hefur næst flest tilfelli skráð af COVID-19 sem telur rúmlega 6,1 milljónir tilfella af kórónaveirunni. Rúmlega hundrað þúsund hafa látist af völdum veirunnar.

Balram Bhargava kynnti niðurstöður rannsóknarinnar á blaðamannafundi inverska heilbrigðisráðuneysins þar sem hann sagði að það hefðu líklegast talsvert fleiri smitast af COVID-19.

Alls voru sýni tekin af 29.000 manns í 21 fylki á einum mánuði og miðað við niðurstöðurnar er líklegt að allt að sextíu milljónir Indverja hafi smitast af COVID-19.

„Niðurstöðurnar sýna að það er líklegt að um fimmtánda hver manneskja yfir tíu ára aldur hafi smitast á einhverjum tímapunkti,“ sagði Bhargava og bætti við að smit væru algengari í fátækrahverfum.

Þetta er í annað sinn sem stofnunin framkvæmir þessa rannsókn. Í byrjun sumars áætlaði stofnunin að þegar væru um sex milljón smit í Indlandi.