Akureyrarstofa safnar nú hugmyndum um notkun á Sigurhæðum, húsi Matthíasar Jochumssonar, en mikil reiði blossaði upp eftir að bæjarstjórn tilkynnti að til stæði að selja húsið.

„Við erum sannfærð um að Sigurhæðir eigi að vera menningarsetur og að heiðra ætti minningu þjóðskáldsins Matthíasar með því að hafa þarna lifandi starfsemi,“ segir Karl Ágúst Úlfsson, formaður Rithöfundasambands Íslands, en sambandið sendi inn athugasemdir til Akureyrarstofu.

Karl segir að til dæmis gætu Sigurhæðir nýst sem starfsaðstaða fyrir rithöfunda, en um áratugaskeið þjónaði húsið þeim tilgangi, og höfðu rithöfundar þar einnig gistiaðstöðu. Síðan hefur það lagst af og engin starfsemi verið í húsinu frá árinu 2016.

Nefnir hann að tilvalið væri að Akureyri gerðist aðili að ICORN, skjólborgum fyrir rithöfunda sem ekki er vært í heimalandi sínu, líkt og Reykjavík hefur gert. Sigurhæðir myndu henta vel til þess.

Að mati Karls væri óskandi að húsið yrði að föstum punkti í menningarstarfsemi bæjarins. „Við óttumst að ef húsið verður selt á opnum markaði rofni þessi menningartengsl. Sá sem myndi kaupa húsið yrði ekki skuldbundinn til að sinna neinum menningarlegum skyldum,“ segir hann. „En Akureyri er mikill menningarbær og ég hef trú á því að bærinn vilji halda reisn á því sviði.“ Þetta kristallist í því að margir hafi látið í sér heyra og sé ekki sama um húsið.

Bæjarstjórn hefur haldið því fram að fjárstuðning skorti, líkt og önnur menningarhús fái. Karl segir að ýmislegt sé á sig leggjandi í leit að tekjustofnum fyrir starfsemina. Fært sé að finna aðrar leiðir en útsvar bæjarbúa.