Einungis fimm kettir eru auglýstir á vef Kattholts í leit að heimili. Engir kettlingar eru í heimilisleit í Kattholti núna.

Jóhanna Ása Evensen, kölluð Hanna, rekstrarstjóri Kattholts segir að það séu tvær hliðar á því hvort það sé jákvætt að svo fáar kisur séu í heimilisleit í dag. Miklar breytingar urðu þegar Covid hófst og urðu kettir og kettlingar þá mjög eftirsóknarverðir og voru yfirleitt farnir á ný heimili á innan við viku. „Það er mjög jákvætt,“ segir Hanna.

Á hinn bóginn er spurningin hvort kisunum verði hreinlega skilað til baka þegar Covid hættir og er það áhyggjuefni, segir Hanna.

Hún er þó bjartsýn: „Mér finnst fólk þó meðvitaðra um hvaða ábyrgð felst í því að eiga kisu í dag.“

Snowman og Kvika eru tvö af þeim fáu í Kattholti sem leita að góðu heimili.
Mynd/Kattholt

Kröfur Kattholts til þeirra sem vilja ættleiða ketti eru meiri en fyrr. „Við viljum að þeir sem fá kött frá okkur, fái kött sem passar inn á heimilið. Ef fjögurra manna fjölskylda vill fá kött þá þarf lýsingin á köttunum, sem eru kannski að koma frá öðru heimili, að passa,“ segir Jóhanna. Kettirnir komi til dæmis til Kattholts eftir að hafa sýnt skrýtna hegðun á heimili sínu, til dæmis eftir að barn komi á heimilið. Þá fari þeir stundum að vera mikið á flakki og úti eða týnast.

Kötturinn Dragon fannst ráfandi um í Reykjavík með lamað skott en á gott heimili í dag.
Mynd/Instagram Kattholt

„Kettirnir sem koma til okkar í heimilisleit hafa til dæmis brugðist við breytingum á fyrra heimili með því að mótmæla, fara að pissa útum allt eða jafnvel láti sig bara hverfa. Breytingar á heimili sem kettir geta mótmælt, geta verið frá því að parketleggja gólfið í það að flytja,“ segir Hanna.

Og það eru kröfur vegna velferðar kattanna. „Það er ekki nóg að vilja að fá sætan kött, og ef hann er í lýsingunni á heimasíðunni okkar ekki vanur börnum þá skoðum við það þegar fólk kemur. Fólk kemur kannski með börn sín og kisi er kannski í felum allan tímann og enginn tenglasmyndun á sér stað, þá skoðum við málið betur. Við leitumst eftir að mynda tengingu á milli fólksins og kattarins og því að sýna því virðingu hvaða umhverfi og atlæti kötturinn þarf.“

Kisinn Golíat hafði verið á vergangi í nokkur ár og barist fyrir tilveru sinni áður en hann komst í Kattholt.
Mynd/kattholt

Hún segir ekki óalgengt að fólk komi oftar en einu sinni til að athuga hvort kisinn vilji tengjast þeim. En dæmin eru alls konar. „Fólk kemur og þá eru kannski tveir kettir sem þau hafa augastað á, annar bara felur sig en annar bara leggst á bakið og er á útopnu,“ lýsir Hanna.

Um að fá kisu hjá Kattholti ítrekar hún: „Það gerist aldrei neitt á einum degi, við setjum í raun ekki reglur en þetta er bara þróun hjá okkur og notum okkar þekkingu.“ Fólk er almennt viljugt að láta vita af framgangi mála heima fyrir með nýja kisanum. „Við höfum ekki farið í neinar húsvitjanir en biðjum fólk um að senda smá frásagnir og myndir sem það gerir oft.“

„Okkur finnst erfitt að kveðja þær en gott að vita að þær eru að fara á besta mögulega heimilið hverju sinni,“ segir Hanna.