Að minnsta kosti tvær sprengjur voru sprengdar fyrir utan alþjóðaflugvöllinn í Kabúl í gær. Íslamska ríkið lýsti yfir ábyrgð á samfélagsmiðlum en þegar Fréttablaðið fór í prentun var óttast að í það minnsta hundrað hefðu látist og fjölmargir slasast.

Fyrri sprengingin átti sér stað nálægt Abbey-hliðinu á flugvellinum, sem breskir hermenn hafa staðið vörð um undanfarna daga. Það er eitt þriggja hliða sem hefur verið lokað vegna yfirvofandi hryðjuverkaógnar.

Síðari sprengingin átti sér stað nálægt Baron-hótelinu sem breskt herlið hefur notað sem varðstöð til að undirbúa brottflutning breskra ríkisborgara og Afgana frá flugvellinum.

Myndir sem voru teknar á flugvellinum sýna lík á sprengjusvæðinu og fjölmarga slasaða Afgana. Deborah Haynes, ritstjóri Sky News, ræddi við fyrrverandi túlk breska herliðsins í Kabúl sem sagðist hafa verið að bíða eftir flugi ásamt konu sinni og börnum þegar sprengingarnar áttu sér stað.

„Þetta var eins og dómsdagur, slasað fólk alls staðar. Ég sá fólk hlaupandi um blóðugt í framan og á líkamanum,“ sagði hann.

Samkvæmt afganska blaðamanninum Bilal Sarwary voru árásarmennirnir í það minnsta tveir við Abbey hliðið. Annar þeirra á að hafa sprengt sig í loft upp á meðan hinn hóf skothríð á mannþröng fyrir framan flugvöllinn.

Neyðarfundur vegna árásanna

Bandaríska varnarmálaráðuneytið Pentagon staðfesti í gær að bandarískir hermenn og ríkisborgarar hefðu fallið í árásinni.

„Við getum staðfest að sprengingin nálægt Abbey-hliðinu var afleiðing flókinnar árásar sem olli dauða fjölda bandarískra og óbreyttra borgara,“ skrifaði John Kirby, fjölmiðlafulltrúi Pentagon, á Twitter.

Joe Biden Bandaríkjaforseti var upplýstur um stöðu mála og talaði til þjóðarinnar seint í gærkvöld. Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hélt neyðarfund vegna tíðindanna og Emmanuel Macron Frakklandsforseti staðfesti að Frakkar myndu halda áfram brottflutningi sinna ríkisborgara þrátt fyrir árásina.

Gífurlegt öngþveiti hefur verið við flugvöllinn frá því að Talibanar hertóku Kabúl þann 15. ágúst. Þúsundir manna hafa haldið til fyrir utan flugvöllinn og freistað þess að komast úr landi og sumir jafnvel hangið utan á bandarískum herflugvélum við flugtak.