Steinar Immanúel Sörensen, sem vistaður var á Hjalteyri sem barn, segir að hann aðrir sem voru vistaðir á Hjalteyri óttist að lenda á milli skips og bryggju nú þegar skipt hefur verið um dómsmálaráðherra.

Málið hefur vakið mikinn óhug, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir sagði í þættinum Reykjavík síðdegis í síðustu viku að greinargerð um málið verði sett í forgang. Jón Gunnarsson hefur nú tekið við sem dómsmálaráðherra.

„Nú fyllumst við Hjalteyrarbörnin ótta,“ segir Steinar Immanúel í samtali við Fréttablaðið. „Áslaug Arna lofaði að málið færi í forgang og að gerð yrði greinargerð. Það var aðeins fyrir nokkrum dögum. Nú er nýr dómsmálaráðherra að taka við og við óttumst að tækifærið verði nýtt til að kæfa málið.“

Steinar segir að ástæðan fyrir óttanum sé reynslan af kerfinu. „Þetta hljómar kannski eins og óþafa ótti en reynslan af hundsun hefur brennt okkur,“ segir hann. „Ef hægt væri að fá einhver svör frá nýjum dómsmálaráðherra um þetta myndi það veita okkur mikla hugarró.“