Hætta er á því að börn dragist aftur úr námi á meðan á sóttkví eða einangrun stendur, sérstaklega ef það gerist ítrekað, segir umboðsmaður barna í bréfi til mennta- og barnamálaráðherra.
Í einhverjum tilfellum er börnum haldið heima í verndarsóttkví ef börnin eru sjálf eða fjölskyldumeðlimir þeirra í áhættuhópi. Salvör Nordal, umboðsmaður barna, segir að henni hafi borist fjölda ábendinga og fyrirspurna um rétt barna sem sæta sóttkví eða einangrun.
Að sögn Salvarar er brýnt að skólar fái leiðbeiningar, að samhæfð viðbrögð séu tryggð og að réttur barna til menntunar sé virtur. Viðbrögð skólanna vegna sóttkví og einangrun nemenda séu mjög mismunandi.
Salvöru hafa borist ábendingar frá foreldrum um að þau hafi þurft að eiga frumkvæði að samskiptum við skólana um hvernig námi barns í sóttkví eða einangrun skuli hagað. Samstarfið séu þó í flestum tilfellum gott.
Þarf að samræma viðbrögð skóla
Mismunandi er hvernig fjarvera vegna sóttkvíar eða einangrun eru skráðar. Sum staðar eru fjarverurnar skráðar sem leyfi eða almenn veikindi. Annars staðar eru þær skráðar sem fjarvera tengdar faraldrinum.
„Að mati umboðsmanns barna er bagalegt að skráning fjarvista nemenda vegna faraldursins hafi ekki verið samræmd, enda um mikilvægar upplýsingar að ræða, sem gefa vísbendingar um þann fjölda barna sem mun þurfa á auknum stuðningi við áframhaldandi nám sitt að halda,“ segir Salvör í bréfinu.
Ítrekuð sóttkví eða einangrun auka einnig líkurnar á félagslegri einangrun barna og mögulega skólaforðun. Umboðsmaður hefur bent á mikilvægi þess að gripið sé til aðgerða til að bregðast við skólaforðun og því að nemendur hverfi frá námi.
Umboðsmaður vill að sérstakt mat sé lagt á þörf barna fyrir stuðning í námi eftir langa fjarveru, að ráðuneytið veiti skólum leiðbeiningar um stuðning til að réttur barna til menntunar verði sem best tryggður og veiti framhaldsskólum leiðbeiningar um hvernig megi styðja við fjarverandi nemendur.